Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 17:13:51 (6873)


[17:13]

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er sýnkt og heilagt gripið til þess að vitna í umsagnir Skotveiðifélags Íslands eða Skotvíss þegar færa þarf rök fyrir því að taka upp það kerfi sem veiðikortið kallar á. Í umræðum þegar þetta mál var fyrst til umræðu og hæstv. fyrrv. umhvrh. mælti fyrir því þá taldi hann að skotveiðimenn á Íslandi væru 15 þúsund. Nú skilst mér að í hv. umhvn. sé þessi tala komin í 5--7 þúsund og skil ég ekki alveg hvernig hún hefur getað minnkað um helming á svo skömmum tíma. Ég vil því leyfa mér að efast um það að Skotveiðifélag Íslands, Skotvís, séu hinir raunverulegu talsmenn skotveiðimanna á Íslandi og leyfi mér því að spyrjast fyrir um það hvort menn geri sér grein fyrir því hvað margir eru aðilar að því félagi af þeim núna eru komnir í 5--7 þúsund en voru 15 þúsund fyrir tveimur árum síðan.