Lax- og silungsveiði

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 10:57:50 (6881)


[10:57]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er þá fyrst frá því að segja að 72. gr., eins og hún er í þessum lögum núna, hefur ekki verið virk. Það hafa reyndar fengist fregnir um það að fyrir eitthvað liðlega áratug hafi landbrh. notað heimild þessarar greinar til að leyfa hafbeitarstöð að sækja sjó innan þessara 200 metra. Að öðru leyti hefur þessi grein ekki verið virk og það hefur enginn getað sótt lax í sjó á grundvelli hennar.
    Það kemur fram í nál. að þrátt fyrir að hún væri nú alveg óbreytt frá því sem verið hefur þá kom fram andstaða við greinina og þar sem hún hefur ekki þjónað neinum tilgangi er lagt til að hún verði felld út. Þess í stað koma tvær áréttingar við þessa skoðun fram í afgreiðslunni núna. Það er þá í fyrsta lagi 67. gr. eins og hún er í frv., en þar segir: ,,Þrátt fyrir ákvæði 66. gr. skal ráðherra eftir tillögum veiðimálastjóra og með samþykki veiðimálanefndar setja reglur um töku á laxi, er kemur úr sjó í hafbeitarstöð, og um merkingar á sýnatöku úr fiskum.`` Landbn. skýrir í tillögum sínum þessa grein enn betur með 4. mgr. í 5. gr. brtt., en þar er kveðið á um að innan árs frá því að þessi lög verða staðfest eigi að setja reglur fyrir hverja og eina hafbeitarstöð og þar er gengið út frá að m.a. verði kveðið á um rétt hafbeitarstöðva til að sækja lax í sjó.