Lax- og silungsveiði

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:04:34 (6884)


[11:04]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það er í framhaldi af því máli sem ég var að fá upplýsingar um frá hv. formanni nefndarinnar. Mér skilst, eftir að hafa fengið þessar upplýsingar, að nú eigi það að vera alfarið í höndum ráðherra að ákvarða um það hve langt á haf út hafbeitarstöðvar mega fara til að veiða fisk. Það sé því í raun og veru ekki nóg með að ráðherra geti ákveðið að leyfa áfram veiðar með þeim hætti sem

ég lýsti hér áðan að væri gert í hafbeitarstöðvunum þarna á Snæfellsnesinu heldur geti jafnvel verið að leyft verði að veiða enn utar ef ráðherra telur það í lagi.
    Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar hvort það hafi farið fram um þetta atriði víðtæk umræða í nefndinni, með hvaða hætti ætti að ákvarða hve langt mætti ganga í þessum veiðum og hvort það sé einhvers staðar gert ráð fyrir eftirliti sem eigi að beinast að því að finna út hve mikið er veitt af náttúrulegum laxi með þessum hætti í hafbeitarstöðvunum. Því það er ekki hægt að ganga fram hjá því að margir af eigendum og forráðamönnum veiðiáa í nágrenni við þessar hafbeitarstöðvar fullyrða og eru með tölur um veiðar í sínum ám sem benda til þess að þarna sé á ferðinni einhver veiði og það hefur líka fundist fiskur í þessum hafbeitarstöðvum sem er upprunninn úr þessum veiðiám.
    Ég verð að segja alveg eins og er að þrátt fyrir að hv. formaður nefndarinnar hafi talað um að þarna hafi farið fram mikil og ítarleg umfjöllun, sem ég efast ekkert um, að þá óttast ég að þarna hafi menn ekki gætt að sér og ekki farið nægilega vel yfir hvernig ætti að skipa þessum málum í framtíðinni. Þetta er að mínu viti töluvert alvörumál vegna þess að veiðar þessara hafbeitarstöðva eru ekkert smáræði. Það er verið að veiða marga tugi þúsunda laxa í þessum hafbeitarstöðvum. Ætli það hafi ekki verið veiddir 80 eða 90 þús. laxar t.d. í Hraunsfirðinum á sl. ári. Það getur gjörsamlega kollvarpað náttúrlegum veiðiám sem eru í nágrenninu ef inn í þessum veiðum eru þó ekki sé nema örfá hundruð fiska úr þessum árm. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar hv. nefnd var að fjalla um þessa hluti þá held ég að hún hefði nú þurft að setja einhver skilyrði um það hvernig yrði tekið á þessum hlutum úr því að þarna er verið að leggja til að ráðherra hafi algert úrskurðarvald um það með hvaða hætti eigi að koma þessum málum fyrir.
    Að öðru leyti hef ég ekki athugasemdir við þetta frv. Ég sé að það hafa verið sniðnir af því svona augljósir agnúar eins og það að það eigi að sleppa löxum aftur í sjó ef þeir veiðast, hvort sem þeir eru dauðir eða lifandi, eins og var í fyrri tillögunni og sjálfsagt hefur margt fleira verið lagað. En ég hef ekki lesið þetta mjög grannt í gegn þannig að ég ætla ekki að fara að fjalla um frv. að öðru leyti. En ég vil lýsa áhyggjum mínum yfir því að á því máli sem ég hef vakið hér máls á hefur ekki verið tekið, að mér sýnist, eins og nauðsynlegt hefði verið.