Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:17:27 (6888)

[11:17]
     Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd og nýtingu síldarstofna, sem flutt er af sjútvn.
    Þannig er að til sjútvn. var vísað tveimur þáltill. á þessum vetri. Sú fyrri er á þskj. 154, till. til þál. um nýtingu síldarstofna, flm. Jóhann Ársælsson o.fl. Sú síðari er á þskj. 259, till. til þál. um endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd, flm. Gunnlaugur Stefánsson o.fl.
    Eftir talsverðar umræður í sjútvn. um efni þessara tillagna varð það einróma niðurstaða að leggja til við Alþingi að afgreidd yrði ein þáltill. sem sameinaði efni beggja tillagnanna. Er það lagt til á þskj. 968, með svofelldum hætti, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur sem miði að því að auka nýtingu síldar til manneldis og nýta betur þá möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í veiðum og vinnslu síldar. Nefndin endurskoði m.a. í þessu sambandi lög nr. 62/1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, í þeim tilgangi að efla markaðsöflun fyrir síldarafurðir.``
    Það varð sem sagt einróma niðurstaða sjútvn. að ástæða væri til að hreyfa við þessum málum eða taka á þeim með þessum hætti og lofsvert væri það frumkvæði sem fólst í tillöguflutningnum á þskj. 154 og 259.
    Ég hygg, hæstv. forseti, að það sé ekki ástæða til að orðlengja hér um rökstuðning fyrir þessari ályktun. Í sérstakri greinargerð er farið yfir það helsta sem á vettvangi sjútvn. var rætt, en einnig má vísa í greinargerðir með áðurnefndum tveimur þáltill. og þær umræðum sem um þær urðu. En ég leyfi mér að túlka það svo að í heildina tekið hafi verið jákvæðar undirtektir undir efni þessara tillagna.
    Þar sem ályktunin er flutt af sjútvn. gerum við ekki tillögu um að henni verði vísað til nefndar á nýjan leik heldur eingöngu til seinni umræðu og afgreiðslu.