Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:44:28 (6901)


[11:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þm. En vegna þess að hér hefur komið fram álit á sögunni hvernig þetta gerðist í upphafi vil ég láta það koma skýrt fram að um áramótin 1990/1991 kom fram frv. um tryggingagjald sem gerði ráð fyrir hækkun á bændum án þess að því ætti að fylgja réttindi. Réttindi bænda til atvinnuleysisbóta komu síðar og voru alveg skilin frá þessu.
    Ég vil einnig að það komi fram að í frv., af því að ég sat í nefndinni sem fjallaði um málið sem var fjárhags- og viðskiptanefnd, kom skýrt fram að hugmynd þáverandi ríkisstjórnar var að samræma gjaldið á nokkrum árum þannig að það yrði jafnhátt alveg burt séð frá því hvaða atvinnugreinar ættu í hlut. Þetta er ég ekki að segja vegna efnis málsins heldur vegna þess hvaða söguskýring kom fram.