Endurbætur á Þjóðminjasafni

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:19:45 (6914)


[15:19]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vona að það sé alveg ljóst að það hefur engum samningum verið rift og þess vegna er orðalag fyrirspurnarinnar að miklu leyti byggt á misskilningi. Það er heldur ekki rétt að orða það svo að hér hafi nýjar og nýjar nefndir verið skipaðar. Það hafa aðeins tvær nefndir, eftir því sem ég veit best, starfað að þessum málum og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það þótt ný byggingarnefnd leiti til annarra hönnuða en hin fyrri hafði gert. Það út af fyrir sig getur ekki verið neitt óeðlilegt.
    Hv. fyrirspyrjandi nefndi í seinni ræðu sinni að kunnugt væri að öðrum aðilanum hefðu verið greiddar 3 millj. kr. Ég veit ekki alveg hvaðan sú frétt er komin. Ég veit hins vegar að það hafa verið gerðir upp reikningar við Gunnar St. Ólafsson og þeir reikningar námu um 2,5 millj. kr., rétt liðlega 2,5 millj. kr., þannig að það eru engar deilur uppi við hann. Hins vegar hafa þeir haldið uppi kröfum, hinir aðilarnir, sem höfðu unnið fyrir fyrri byggingarnefnd en það hefur ekki komið til nein sérstök greiðsla til þeirra.
    Aðalatriðið er sem sagt að það hefur engum samningum verið rift vegna þess að það voru engir sérstakir samningar í gildi. Það hafði verið leitað til ákveðinna hönnuða og þjónusta keypt af þeim og fyrir þá þjónustu hefur verið borgað.