Þjónusta Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta og heyrnarlausa

147. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 15:25:10 (6916)


[15:25]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Svör mín við spurningum hv. þm. Tómasar Inga Olrich eru byggð á upplýsingum sem ég hef fengið frá Ríkisútvarpinu.
    Í fyrsta lagi er spurt: Hve margir Íslendingar eru ekki eru taldir geta nýtt sér þjónustu Ríkisútvarpsins vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar?
    Heyrnarlausir eru taldir vera á bilinu 200--300 manns. Ekki er vitað hversu margir eru heyrnarskertir, en áætlað að þeir séu allt að 25 þús.
    Í öðru lagi er spurt: Á hvern hátt hefur Ríkisútvarpið reynt að koma til móts við þennan hóp?
    Sjónvarpið kemur til móts við heyrnarlausa með flutningi daglegra táknmálsfrétta við upphaf dagskrár á virkum dögum og á svipuðum tíma um helgar. Einnig hefur Félag heyrnarskertra til eigin afnota

20 síður í textavarpi, auk þess sem almennt textavarp þjónar þessum hópi.
    Í þriðja lagi er spurt: Hefur verið dregið úr þjónustu Ríkisútvarpsins við heyrnarlausa?
    Ekki hefur verið dregið úr þjónustu við heyrnarskertra. Tími táknmálsfrétta hefur verið lengdur úr fimm í átta mínútur, auk þess sem sjónvarpið hefur tekið að sér að greiða laun táknmálsþuls og aðstoðarmanns hans, en í upphafi var þessi þjónusta kostuð af heyrnarlausum sjálfum og félagssamtökum þeirra.
    Í fjórða lagi er svo spurt: Er áformað að auka þjónustu Ríkisútvarpsins við heyrnarlausa?
    Í framtíðinni hlýtur þjónusta við heyrnarlausa fyrst og fremst að verða í textavarpi. Um síðustu áramót var komið upp búnaði til textunar innlendra dagskrárliða í textavarpi og eru þá neðanmálstextar kallaðir fram á sérstakri síðu í textavarpi þannig að textunin truflar ekki þá sem ekki vilja sjá texta á myndfletinum. Helstu innlendir liðir jóla- og áramótadagskrár sjónvarpsins eru textaðir á þennan hátt. Framhald þessarar þjónustu ræðst af því hvort heilbrigðis- eða félagsmálayfirvöld taka að sér að greiða þann kostnað sem þessari sértæku þjónustu fylgir.