Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 16:44:02 (6926)


[16:44]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að eftir þau 63 ár sem Síldarverksmiðjur ríkisins höfðu starfað var efnahagur þeirra ekki betri en svo að hið opinbera varð að hlaupa undir bagga til þess að reksturinn gæti haldið áfram. Það kom líka fram í umræðum sem voru mjög áberandi í fjölmiðlum að Landsbanki Íslands óttaðist um þau veð sem hann hafði á Síldarverksmiðjunum og það liggur líka fyrir að verulegar kröfur sem Síldarverksmiðjur ríkisins áttu m.a. á sitt dótturfyrirtæki voru mjög hæpnar og síðan hefur komið í ljós að það fyrirtæki varð gjaldþrota. ( StG: Síldarverksmiðjur ríkisins hafa alltaf . . .  ) Ég held við skulum gera okkur grein fyrir því að boginn var spenntur mjög hátt varðandi verðið og það er ekki rétt hjá hv. þm. að þetta verð sé lágt. Það er misskilningur. Það liggur þvert á móti fyrir að þeir aðilar sem keyptu Síldarverksmiðjur ríkisins voru ekki reiðubúnir til þess að fara hærra. Ég hygg að ég muni það rétt að hv. þm. Ólafur Ásgrímsson sem nú er formaður Framsfl. hafi einhvers staðar látið þau ummæli falla að hann telji (Gripið fram í.) --- er formaður Alþb. að grípa fram í, sem seldi Þormóð ramma? (Gripið fram í.)
    ( Forseti (VS) : Gefið ræðumanni hljóð.)
    Mig minnir að hann hafi látið falla orð um það að það væri æskilegt, ef Síldarverksmiðjur ríkisins yrðu gerðar að einkafyrirtæki, að þá væri nauðsynlegt að það yrði breiður grunnur á bak við það hlutafélag sem Síldarverksmiðjurnar keyptu. Það hefur verið gert. Ég var á sínum tíma gagnrýndur af þessum sama manni og þessum sama hópi fyrir það að selja Skipaútgerð ríkisins. Við erum að tala um einkavæðingu, við erum að tala um að skjóta styrkum stoðum undir rekstur síldarverksmiðjanna, við erum að tala um að halda þeim í höndum okkar Íslendinga, og við erum að tala um að þeir menn sem búa á stöðunum og þeir menn sem gera út á loðnuna standi einnig og beri ábyrgð á rekstri þessara verksmiðja af því að það er affarasælast bæði í bráð og lengd.