Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 16:46:22 (6927)


[16:46]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. landbrh. var ekki við nema brot af þessari umræðu og sennilega stafar hluti af hans málflutningi af því að sá sem ekki hlýddi á alla umræðuna er náttúrlega ófær um að meta það sem hér var sagt. En þegar fyrirtæki eins og Síldarverksmiðjum ríkisins er lánað fé þá er þar ríkisábyrgð á bak við, það veit hæstv. ráðherra, þannig að þar er verið að tala um 100% öruggar greiðslur. Ég efa að bankinn hafi tekið veð í einu einasta húsi, ég hygg að hann hafi látið sér nægja ríkisábyrgðina. Þess vegna er ekkert óeðlilegt þó að ríkisbanki hafi ákveðnar hugmyndir um það vegna þess að það er hægt að taka fé út úr svona fyrirtækjum, það er mjög auðvelt að gera það ef mönnum sýnist svo.
    Hæstv. ráðherra varð á ruglingur á nafni á formanni Framsfl., það leiðréttist af sjálfu sér, það eru mismæli sem geta hent alla. En deilan stendur ekkert um það hvort þessir aðilar eru æskilegir eða óæskilegir. Við erum ekki að sortéra menn í þessum efnum nema það sé þá innan Sjálfstfl. sem menn séu með

tvenns konar flokksskírteini, aðrir sem eiga að njóta og hinir sem eiga að halda flokknum uppi. Það er út af fyrir sig spurning hvort það sé svo. Ég hef ekkert út á þá aðila að setja sem keyptu. Ég hef sagt það úr þessum ræðustól og segi það enn og aftur, málið snýst ekki um það, málið snýst um það hvers vegna markaðurinn fékk ekki að verðleggja bréfin. Hvers vegna var komið í veg fyrir það og notuð rússnesk aðferð við verðlagninguna?