Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 16:48:16 (6928)


[16:48]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það heyrir til tíðinda þegar hv. 2. þm. Vestf. skjöplast í röksemdafærslunni í umræðum á Alþingi en þau tíðindi hafa orðið hér í dag í ýmsum efnum. Ég bendi á þann kafla í ræðu hans þar sem hann var að fjalla um þá peninga sem til eru í sjóði félagsins en gleymdi því auðvitað, vonandi ekki af ásettu ráði, að fyrirtækið situr uppi með 1,3 milljarða í skuldum sem þarf að greiða. Síðan ræðir hv. þm. hér sem aðalatriði málsins að markaðurinn hafi ekki fengið að ráða. Auðvitað fékk markaðurinn að ráða. Það var höfð ákveðin aðferð við að leita eftir líklegum kaupendum sem gætu tryggt áframhaldandi rekstur fyrirtækisins. Þeim var gefinn kostur á að bjóða í fyrirtækið og sýna við hvaða verði þeir gætu keypt fyrirtækið þannig að hér fékk markaðurinn fullkomlega að ráða. Eins og skýrlega er bent á í athugasemdum Ríkisendurskoðunar hlýtur það svo að vera hin endanlega viðmiðun í þessu efni. En ég vil líka minna hv. 2. þm. Vestf. á það að tillagan um þessa málsmeðferð sem ég vitnaði hér til í upphafi ræðu minnar kom frá fyrrv. stjórn síldarverksmiðjanna og í henni átti m.a. sæti ekki ómerkari maður en fyrrum aðstoðarmaður núv. formanns Framsfl. og hann mælti með því að þessi aðferð yrði höfð við sölu á fyrirtækinu.