Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 17:22:34 (6934)


[17:22]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta síðasta fyrst. Auðvitað munu menn þræta um það endalaust hvort selt hafi verið á réttu eða röngu verði. En ég held nú að það að fara yfir stöðu fyrirtækisins síðustu tvö árin og skoða hvernig aðstæður hafa breyst, skoða hvaða fyrirtæki menn eru með í höndunum og bera það saman við þá fortíð sem fyrir liggur í þessu máli, hljóti að sannfæra hvern þann sem það gerir heiðarlega um það að þetta fyrirtæki getur skilað gífurlega miklum arði og að aðstæður þess til þess að skila þessum arði eru miklu betri en þær hafa verið og það er fáránlegt að taka síðustu 11 ár rekstrar fyrirtækisins og láta niðurstöðu af þeim rekstri ráða því hvað menn fá út úr rekstrarframtíð fyrirtækisins.
    Hæstv. ráðherra kaus að vekja athygli á því að það var ekki samkomulag á milli ráðuneytanna um það með hvernig þetta mál var farið. Það út af fyrir sig segir sína sögu. Ég er ekki hissa á því þó að hæstv. fjmrh. sé ekki kátur yfir því að þetta fyrirtæki mun þrátt fyrir góðan hagnað næstu ár ekki þurfa að borga mikið í skatta, einfaldlega vegna þess að efnahagsreikningurinn var þannig færður upp að það verður hægt að afskrifa býsna mikið þó að fyrirtækið væri ekki keypt á hærra verði heldur en þetta.