Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:04:27 (6942)


[18:04]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 6. þm. Vestf. sagði í ræðu sinni að gera yrði þá kröfu að öll tilboð væru skoðuð jafnt við sölu eins og þessa. Það er einmitt það sem gert var. Öll tilboð voru skoðuð jafnt og eins með þau farið. Eini mismunurinn sem gerður var, eins og hér hefur komið fram og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, var sá að Haraldur Haraldsson fékk rýmri frest til að sýna fram á hvort hann uppfyllti skilyrði um fjárhagslegan styrk sem hann síðar gat ekki sýnt fram á. En öll tilboðin, allir þeir sem sýndu áhuga fengu sömu meðferð. Og það kemur ekkert fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem bendir til þess að aðilum hafi verið mismunað í meðferð málsins. Það hefur enginn getað sýnt fram á og Ríkisendurskoðun gerir enda ekki tilraun til þess að halda því fram.
    Það var svo athyglivert að hv. 6. þm. Vestf. endurtók það sem hv. 3. þm. Vesturl. hafði reyndar áður sagt í sinni ræðu, að endalaust væri hægt að deila um verð af þessu tagi. Auðvitað eru engin ákveðin vísindi sem segja nákvæmlega fyrir um þetta og rétt sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að á endanum er markaðurinn besti dómarinn í því efni en hann er ekkert óskeikull dómari eigi að síður. Það er líka rétt sem hv. 6. þm. Vestf. sagði að Ríkisendurskoðun fullyrðir ekkert um það að fyrirtækið hafi verið selt við of lágu verði. Á þetta hef ég margsinnis bent og þakka hv. þm. fyrir að taka það skýrt hér fram. Það var málefnalegt framlag af hennar hálfu í þessa umræðu og sýnir að sá fullyrðingarstíll sem er á þessari umræðu af hálfu sumra sem í henni taka þátt á ekki við rök að styðjast.