Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:11:30 (6946)

[18:11]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Í júlí 1991 skipaði sjútvrh. þriggja manna nefnd til að vinna að undirbúningi að breytingum á rekstrarformi SR og sölu á eignum félagsins. Þessi þriggja manna nefnd starfaði næstu mánuði ötullega að því verkefni sem henni var falið.
    Mér er kunnugt um að nokkuð skiptar skoðanir voru innan nefndarinnar um sölufyrirkomulag hlutafjárins. Þannig voru uppi sjónarmið um að sölunni yrði dreift á fimm ár þannig að einungis 20% hlutafjárins yrðu seld árlega. Þar að auki voru hugmyndir um að starfsmönnum yrði gefinn kostur á kaupum á allt að 8% hlutafjárins með 25% afslætti og greiðslukjörum, en slíkar reglur hafa gjarnan verið notaðar við einkavæðingu fyrirtækja erlendis, t.d. í Bretlandi. Þá var og gerð tillaga um að sjútvrh. og viðskrh. færu að hálfu hvor með atkvæði fyrir eignaraðild ríkisins.
    Eins og kunnugt er náðu þessar hugmyndir ekki fram að ganga í þeirri mynd sem gat um hér að framan. Hins vegar má segja að eitt meginmarkmiðanna, þ.e. að tryggja heimamönnum og starfsmönnum fyrirtækisins nokkurn forgang, hafi birst í athugasemdum með 3. grein frv. á sínum tíma, en ég mun víkja nánar að því síðar.
    Að því er ég best veit hefur tvívegis á síðustu árum orðið verulegur ágreiningur um hvort ráðherrar hafi farið eins og best verður á kosið með sölu hlutafjár í eigu ríkisins sem leitt hefur til þess að hið háa Alþingi hefur óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar þar að lútandi. Hið fyrra tilvik var við sölu hlutabréfa í Þormóði ramma undir forustu þáv. fjmrh., hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, og hið síðara, sem hér er um fjallað nú, þ.e. sölu hæstv. sjútvrh. Þorsteins Pálssonar á SR-mjöli hf.
    Ég tel nauðsynlegt í þessu sambandi að líta til helstu niðurstaða Ríkisendurskoðunar varðandi sölu Þormóðs ramma hf. áður en lengra verður haldið. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þó svo í lögum sé ekki að finna bein fyrirmæli eða reglur um það hvernig standa skuli að sölu hlutabréfa í eigu ríkissjóðs sýnist sem almennra jafnræðissjónarmiða hafi ekki verið gætt í nægilega ríkum mæli við sölu hlutabréfa ríkisins í Þormóði ramma hf. Þar kemur einkum til að hvorki sala hlutabréfanna né þeir skilmálar og skilyrði er sett voru fyrir sölunni voru auglýst opinberlega.``
    Enn fremur segir:
    ,,Full þörf sýnist vera á því að setja með formlegum hætti samræmdar, almennar reglur um það hvernig standa skuli að sölu á eignum ríkisins með sama hætti og settar hafa verið reglur um hvernig standa skuli að opinberum innkaupum, sbr. lög nr. 52/1987.``
    Þá segir og:
    ,,Miðað við þær forsendur sem Ríkisendurskoðun gaf sér við útreikning á virði Þormóðs ramma hf. og að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem fjmrn. setti fyrir sölunni telst verðmæti alls hlutafjár í félaginu á söludegi vera á bilinu 250 til 300 milljónir króna. Við sölu hlutabréfa ríkissjóðs var hins vegar verðmæti þeirra metið á 150 milljónir króna.``
    Lítum nú dálítið nánar á megininntakið í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar varðandi söluna á Þormóði ramma og það hvort af þeim niðurstöðum hafi verið dreginn lærdómur.

    Í fyrsta lagi gagnrýndi Ríkisendurskoðun í Þormóðs rammamálinu, að hvorki hafi sala hlutabréfanna né þeir skilmálar og skilyrði er sett voru fyrir sölunni verið auglýst opinberlega. Með sama hætti gagnrýnir Ríkisendurskoðun í SR-málinu, og vitna ég beint í skýrslu stofnunarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Grunnupplýsingar um SR-mjöl hf. voru ekki veittar fyrr en við afhendingu útboðsgagna hinn 17. des. 1993. Að mati Ríkisendurskoðunar var óeðlilegt að setja þeim sem áhuga höfðu á kaupum þau skilyrði fyrir afhendingu útboðsgagna að þeir hefði áður sýnt fram á fjárhagslegt bolmagn til kaupanna og reksturs fyrirtækisins, svo og gert grein fyrir lánveitendum og tryggingum sem lánveitendum væru boðnar ef kaupin yrði fjármögnuð með lántökum að einhverju leyti. Engu að síður má gagnrýna það að einn þeirra sem áhuga sýndi á hlutabréfunum fékk útboðsgögnin afhent án þess að uppfylla nefnd skilyrði. Slíkt fól í sér mismunun gagnvart öðrum er áhuga höfðu sýnt áhuga á hlutabréfunum en þeim var ekki gefinn kostur á að kynna sér útboðsgögnin án þess að uppfylla skilyrðin``.
    Af mistökum þeim sem ég tel að hafi orðið við sölu Þormóðs ramma hf. var nauðsynlegt að mínu mati að draga nokkurn lærdóm. Það var og gert. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum hinn 12. okt. sl. skýrar verklagsreglur um framkvæmd einkavæðingar. Vissulega hafa slíkar verklagsreglur ekki lagagildi. Ætla verður þó að það sé afdráttarlaus vilji ríkisstjórnarinnar að fara að þeim reglum í einu og öllu. Því tel ég að vafasamt hafi verið að skipa sérstakan starfshóp til að annast söluna á SR-mjöli hf. daginn eftir að nefndar verklagsreglur voru samþykktar. Því hefði verið sjálfsagt og eðlilegt að svonefnd framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefði annast söluna. Þess ber og að gæta að nefndar verklagsreglur hljóta að hafa verið í undirbúningi um nokkurn tíma og varla verið þeim sem hlut áttu að máli ókunnugt um að setning þeirra stæði til.
    3. grein verklagsreglnanna hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Auglýsingar. Fyrirtæki sem til stendur að selja skulu ávallt auglýst almenningi til kaups þannig að öllum sem áhuga hafa sé tryggður réttur til að bjóða í þau.``
    Þessari reglu um auglýsingar fylgdi nefndin um sölu SR-mjöls hf. og setti að auki skilyrði sem bar að uppfylla. Ég tek undir með Ríkisendurskoðun að skilyrðin hafi verið óeðlileg og hafi farið á svig við 3. gr. verklagsreglnanna þar sem segir að öllum sem áhuga hafi sé tryggður réttur til að bjóða. Á sama hátt og Ríkisendurskoðun taldi að jafnræðissjónarmiða hafi ekki verið gætt við söluna á Þormóði ramma hf. 1990 tel ég að slíkra sjónarmiða hafi ekki verið nægjanlega gætt við söluna á SR-mjöli hf. Hafi menn hins vegar ekkert við hin auglýstu skilyrði starfshópsins að athuga er það vert gagnrýni að einn þeirra aðila sem útboðsgögnin fékk afhent uppfyllti alls ekki þau skilyrði sem sett voru. Þannig var hvorki fylgt þeim jafnræðissjónarmiðum, sem ég tel að í verklagsreglunum felist, né að jafnræðissjónarmiða gætti við ákvörðun söluhópsins um hverjir skyldu fá gögnin undir hendur.
    Í upphafi máls míns vitnaði ég til athugasemda við 3. grein frv. til laga sem síðar urðu lög nr. 20/1993. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Skal við söluna stefnt að dreifðri hlutafjáreign þannig að enginn einn aðili eignist meiri hluta. Frá þessu má þó víkja ef almenningshlutafélag á í hlut. Jafnframt skal við söluna sérstaklega horft til heimamanna og starfsmanna á þeim stöðum sem verksmiðjurnar eru starfræktar. Skal óskað eftir viðræðum við heimamenn og/eða samtök þeirra um hugsanleg kaup á hlutabréfum.``
    Ég tel að starfshópurinn hafi við söluna gætt þess vandlega að hlutafjáreign dreifðist. Hins vegar tel ég að starfshópurinn hafi ekki farið að skýrum vilja löggjafans um það að óska eftir viðræðum við heimamenn og/eða samtök þeirra. Í það minnsta hef ég ekki heyrt af slíkum viðræðum og er það miður. Hitt er svo annað mál að heimamenn og starfsmenn komu síðar til samstarfs við þá aðila sem höfðu forgöngu um kaupin og er ekkert nema gott um það að segja. Ég tel hins vegar óhæft að starfshópurinn skyldi í raun framselja þá ótvíræðu kvöð sem á seljendum hvíldi að eiga viðræður við heimamenn.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er að því vikið að vandasamasti og mikilvægasti þátturinn við sölu ríkisfyrirtækja sé að jafnaði mat á virði þess. Engum heilvita manni dettur í hug að mótmæla því. Ég tel hins vegar í fyllsta máta vafasamt að fullyrða, eins og Ríkisendurskoðun nánast gerir, að fyrirtækið hafi verið selt of lágu verði. Það gerir Ríkisendurskoðun á bls. 7 í niðurstöðum sínum, með leyfi forseta:
    ,,Samanburður á mati tilboðsgjafa á framtíðartekjuvirði SR-mjöls hf. og mati VÍB bendir til að verðmæti fyrirtækisins hafi verið hærra en endanlegt kaupverð.``
    Ég fæ hins vegar ekki séð að Ríkisendurskoðun sýni með skýrum hætti fram á að það hafi verið gert. Nú hefur sá sem hér mælir hvorki næga þekkingu né forsendur til að leggja mat á söluverðið. Þá hlýtur jafnan að vera nokkuð huglægt hvað telst ásættanlegt verð í slíkum tilvikum. Hitt vil ég taka undir með Ríkisendurskoðun að ég tel mikilvægt að fela fleirum en einum aðila að meta framtíðartekjuvirði fyrirtækja þegar hið opinbera selur hlut sinn í fyrirtækjum sem SR-mjöli hf. Slík vinnubrögð munu einungis treysta það verk sem verið er að vinna hverju sinni.
    Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við að tilboði VÍB í sölu á hlutabréfum í SR-mjöli hf. skuli hafa verið tekið en ekki tilboði Landsbréfa sem var tæpum 10 milj. kr. lægra. Undir það verður að taka. Á hinum tiltölulega umsvifalitla fjármagnsmarkaði sem hér á landi er fæ ég ekki séð annað en einhver tengsl og hagsmunir hljóti að skarast í slíkum tilvikum. Hjá því verður vart komist. Ég tel hins vegar að Landsbréf hafi ekki haft þau tengsl við mál þetta að bannað hafi að taka tilboði fyrirtækisins.
    Það er álit Ríkisendurskoðunar að hvorugur þeirra aðila sem sendu inn tilboð í hlutabréf SR-mjöls

hafi fullnægt þeim skilyrðum sem sett höfðu verið í útboðsskilmálum. Ég hygg að óumdeilt sé að annar aðilanna, sem fengu útboðsgögnin afhent, hafi alls ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett voru. Með því hins vegar að afhenda honum gögnin hafi verið gengið á svig við jafnræðisreglur, eins og ég gat um hér á undan, að aðilum sem sýnt höfðu málinu áhuga hafi verið mismunað
    Um það má hins vegar deila hvort hinn hópurinn hafi uppfyllt þau skilyrði sem sett voru. Raunar tel ég að svo hafi ekki verið. Allt of almennt var komist að orði um þá aðila sem að hópnum stóðu, þ.e hvort fjármögnun hafi átt að vera af eigin fé eða lánsfé, svo og hverjir tilheyrðu hópnum. Í ljósi þess hversu gífurlegir hagsmunir voru í húfi tel ég að við þessar aðstæður hefði átt að lengja fresti og/eða hefja sölumeðferð að nýju.
    Við opnum tilboða kom bréf frá Akureyrarbæ um að frestur yrði lengdur til 20. jan. Þar kom einnig fram að útboðsgögnin hefðu borist bæjaryfirvöldum seint í hendur og ekki hafi unnist tími til að ljúka viðræðum við nokkra aðila um samstarf. Vissulega kom beiðni Akureyrarbæjar seint fram. Hefði Akureyrarbær hins vegar lýst vilja sínum til að ganga til samninga með svipuðum hætti og þeir gerðu sem síðar urðu kaupendur er erfitt að sjá að mögulegt hefði verið að ganga fram hjá Akureyrarbæ. Akureyrarbær gekk hins vegar fram í þessu máli í fullkomnu samræmi við þau skilyrði sem sett voru og taldi sig ekki uppfylla þau skilyrðin eins og ég tel raunar að enginn aðila hafi gert.
    Virðulegi forseti. Það er óumdeilt að samkvæmt lögum nr. 20/1993 var það alfarið sett í hendur hæstv. sjútvrh. að annast sölu hlutabréfanna í SR-mjöli hf. Hæstv. sjútvrh. kaus að fela sérstökum söluhópi verkið. Ég tel að það hefði verið heppilegra að fela framkvæmdanefnd um einkavæðingu verkið og tryggja þannig að farið yrði að þeim verklagsreglum sem ríkisstjórnin hafði samþykkt um slíka framkvæmd. Það er einnig óumdeilt að kaupendur fyrirtækisins hafi í einu og öllu staðið við kaupsamning þann sem gerður var til þessa og þannig reynst traustir kaupendur hvað það varðar. Hins vegar tel ég að þeim hafi ekki verið gert að uppfylla þau skilyrði til fullnustu sem sett voru í skilmálum VÍB og því ekki átt að fá útboðsgögnin afhent á sínum tíma. Ég tel að jafnræðis hafi ekki verið gætt sem skyldi. Því hefði verið heilladrýgst að lengja frestinn eða hefja sölumeðferð að nýju.
    Það sem upp úr stendur er þetta: Af mistökum þeim sem gerð voru við sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Þormóði ramma hf. var dreginn nokkur lærdómur. Settar hafa verið verklagsreglur af ríkisstjórn um það hvernig staðið skuli að slíkri sölu. Það er hins vegar ekki nægjanlegt að segja reglur ef ekki er tryggt að eftir þeim sé farið. Því tel ég nauðsynlegt að færa slíkar reglur í lagabúning þannig að tekin séu af öll tvímæli. Með því verði tryggt að sala á hlutabréfum ríkissjóðs í framtíðinni verði með eins hreinlegum og ótvíræðum hætti og mögulegt er til þess að grunsemdir af nokkru tagi geri ekki vart við sig.