Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:26:22 (6947)


[18:26]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Margt af því sem kom fram hjá hv. þm. get ég tekið undir. Það er þó tvennt sem ég vil gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi varðandi verklagsreglur þær sem ríkisstjórnin samþykkti þá ber að taka fram að sjútvrh. á ekki aðild að framkvæmd um einkavæðingu. Það er alveg ljóst að sjútvrn. fylgdist ekki með undirbúningi tillagnanna meðan sá undirbúningur átti sér stað en eftir að söluhópurinn tók til starfa var engin athugasemd gerð af hálfu framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem fylgir eftir þessum reglum. Það er nauðsynlegt að þetta komi fram.
    Þegar rætt er um Þormóð ramma má heldur ekki gleymast með hvaða hætti var staðið að þeirri sölu á sínum tíma því það er skólabókardæmi um það hvernig ekki á að standa að sölu á opinberum eignum. Það kom í ljós vegna þess að virði fyrirtækisins var fært upp úr öllu valdi og síðan þegar andvirðið var greitt af hálfu kaupanda fyrirtækisins var það gert með húseign í Reykjavík sem reynst hefur metin tvisvar til þrisvar sinnum of hátt. Þetta er aðferð sem ekki ætti að sjást og athugasemd hefur komið við. Þetta vildi ég að kæmi fram þegar verið er að bera saman þessar tvær sölur sem eru ólíkar á miklu fleiri sviðum en hv. þm. sagði frá.