Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:55:57 (6958)


[18:55]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að tala frekar um þessar hugleiðingar mínar um riftun kaupanna, ég er búinn að því og ég get út af fyrir sig ítrekað það aftur að ég lýsi ánægju minni með það hvernig núverandi kaupendahópur er samsettur. Það segir ekkert um það að ég hafi verið ánægður með málsmeðferðina í heild sinni. Það segir ekkert um það að ég sé ánægður með verðið sem hópurinn kaupir á og það segir mér ekkert dag þó að þessi hópur segi núna: Við vorum ekki tilbúnir til að kaupa fyrirtækið á hærra verði. Hvað getur hann sagt annað? Dettur einhverjum í hug að þeir kæmu núna fram og segðu: Nei, við vitum það að 725 millj. eru allt of lágt verð. Við hefðum miklu heldur viljað kaupa það á 1 milljarð eða 1 milljarð og 11 millj. kr. sem var það mat sem VÍB lagði á og voru hærri verðviðmiðunarmörk þess ágæta fyrirtækis. Ýmislegt bendir til þess, álít ég, þó að ég hafi ekki tíma til þess nú að rökstyðja það, að það hefði mátt ná betra verði en tókst að ná með þeim samningi sem gerður var.