Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 19:02:31 (6963)


[19:02]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu á bls. 24 þar sem talað er um forsendur verðmatsins. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í verðmati því sem VÍB lagði fyrir sölunefnd SR-mjöls var annars vegar tekjuvirði núvirt miðað við 15% ávöxtunarkröfu og hins vegar 20% sem gaf líklegt tekjuvirði á bilinu 695 millj. kr. til 1.011 millj. kr.``
    Með öðrum orðum er sagt hér að það sé ákveðið verðbil í gangi og niðurstöðutalan er innan þessa verðbils og þar af leiðandi er hvergi getið um það að um undirverð sé að ræða. Það er ekkert rétt verð til í þessum viðskiptum, hv. þm. Það er að sjálfsögðu ekkert rétt verð til og Ríkisendurskoðun er ekkert hæfari til þess að meta hvað sé rétt verðmið í viðskiptum en aðrir aðilar. Það ræðst að sjálfsögðu af því hverjir bjóða í fyrirtækið og á hvaða verði. Og verðið sem boðið var í var innan svigrúmsins.