Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 19:06:04 (6966)


[19:06]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Um Harald þarf ekki að ræða frekar. Ég las það upp sem stendur í skýrslunni

og þau svör sem fjárln. hefur fengið við hans tilboði og ítreka ég það. Út af því sem kom fram áður frá hæstv. ráðherra að einstakir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi verið að gerast sporgöngumenn einhverra ákveðinna aðila eða jafnvel umboðsmenn þeirra við þessa sölu hafna ég alfarið og vísa því frá mér. Ég hef ekki einu sinni gerst sérstakur umboðsmaður Akureyrarbæjar í þessu sem ég tel þó að hafi verið farið heldur illa með í málsmeðferðinni allri. Ef þeir hefðu fengið aðeins lengri tíma og hæstv. ráðherra hefði ekki legið svona á, þá hefði hugsanlega verið hægt að fá fleiri aðila, trausta og trúverðuga, til þess að gera tilboð í þetta fyrirtæki og gerast kaupendur að því.
    Það var kannski ekki alveg rétt haft eftir mér hjá hæstv. ráðherra að ég hafi viðurkennt að það hafi ekki verið tilefni til að rifta. Ég sé ekki að það séu neinir möguleikar á því. Staðan er sú við málsmeðferðina að við eigum ekki þann kost fyrir hendi. Það er ekkert til í myndinni. Við verðum að sætta okkur við þær leikreglur sem þingið hefur samþykkt og lögfest þó að við sumir stjórnarandstæðingar höfum verið ósammála því þegar frv. var til meðferðar hvernig að samþykkt þess var staðið.