Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 19:08:41 (6968)



[19:08]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég vona svo sannarlega að rekstur þessa fyrirtækis sé tryggður. Ég tel afar mikilvægt að svo sé fyrir þá sem eiga svo mikið undir því að fyrirtækið starfi. Ég ber ekki neitt vantraust í brjósti til þeirra aðila sem nú eru eigendur þessa fyrirtækis að þeir haldi því ekki áfram. Ég treysti því svo sannarlega að þeir geri það og vona það vegna þess hversu mikilvægt þetta fyrirtæki er í þeim byggðarlögum sem það starfar í.
    Það breytir ekki því, virðulegur forseti, að okkur kann að greina á bæði um málsmeðferð og um endanlegt kaupverð. Það er svo aftur bara annað mál og það hefur komið alveg skýrt fram að ráðherra hefur sínar skoðanir á því og ég mínar og þar er eitthvert bil á milli. Varðandi það að rifta eða ekki rifta, þá liggja lögin fyrir, eins og ég segi, og við vitum hvaða möguleika við höfum í því efni. Það er ekki fyrir hendi. Það er líka mikill ábyrgðarhluti þegar maður athugar það nánar hvort nokkurt vit er í slíkri gjörð. Hún mundi auðvitað kalla á skaðabótakröfu á hendur ríkinu og mundi stefna rekstri fyrirtækisins í mikla óvissu sem ég vil ógjarnan vera valdur að.