Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 20:46:36 (6970)


[20:46]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hafa umræður um SR-mjöl eða söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins staðið lengi dags og margir tekið til máls en þrátt fyrir það eru ýmis atriði í þessu máli sem mér finnst við ekki hafa fengið svör við og ég mun koma inn á seinna í mínu máli.
    Að mínum dómi snýst þetta mál fyrst og fremst um tvennt: Það er í fyrsta lagi það hvort Síldarverksmiðjur ríkisins eða SR-mjöl eins og fyrirtækið hét þegar það var selt var selt á of lágu verði, þetta hafi verið á einhvers konar útsölu, og svo hitt atriðið hvort rétt hafi verið að málum staðið við sölu hlutabréfa í fyrirtækinu. Ég vil taka það skýrt fram að við kvennalistakonur höfum aldrei nefnt það einu orði að fyrirtækið hafi verið selt röngum aðila eða það hefði átt að selja það öðrum þeim sem gáfu sig fram og sýndu áhuga á fyrirtækinu. Hitt er svo annað mál hvernig hópurinn er saman settur sem keypti fyrirtækið. Eins og hér hefur komið fram er eignaraðildin mjög dreifð, mjög margir sem hafa komið þar að verki, en þar eru líka inni á milli býsna sterkir aðilar sem eiga víða í fyrirtækjum.
    Varðandi fyrra atriðið, það hvort fyrirtækið hafi verið selt á of lágu verði, þá er eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar erfitt að segja til um það hvert er eðlilegt verð á fyrirtæki eins og Síldarverksmiðjum ríkisins og þar er auðvitað komið inn á megingagnrýnina í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er það atriði að ekki skuli hafa verið leitað til fleiri aðila þegar verið var að meta verðgildi fyrirtækisins. Þetta er mikill galli og þó að það komi fram hjá hæstv. sjútvrh. að stjórn fyrirtækisins hafi haft hugmyndir um það hvers virði fyrirtækið væri þá er það aðeins einn aðili sem mat það hvað fyrirtækið ætti að kosta eða hvers virði það væri, aðeins einn óháður aðili, og ég tek undir þá skoðun Ríkisendurskoðunar að ég held að þegar um svona stórfyrirtæki í eigu ríkisins er að ræða þá sé eðlilegt að fleiri komi að því mati. Þetta er auðvitað langstærsta dæmið um einkavæðingu sem við erum hér að ræða og í fyrsta sinn sem verulegar deilur verða um það hvernig staðið er að málum og eins og við höfum horft upp á þá eru hafin málaferli vegna þessarar sölu. Það er ekki rétt sem fram kom í máli hæstv. sjútvrh. að allt hafi þetta gerst í sátt við starfsmenn því að BSRB er að undirbúa málaferli vegna réttinda starfsmanna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins eins og þær hétu þá.

    Ef maður reynir að átta sig á því hvort fyrirtækið hafi verið selt of lágu verði þá er vert að huga að því hvað var verið að selja og í fyrsta lagi er þar að nefna gríðarlegar húseignir á nokkrum stöðum á landinu, þar á meðal mikil verksmiðjuhús og nýuppgerð verksmiðjuhús og reyndar verksmiðjur og vélar, bæði á Siglufirði og Seyðisfirði. Ég hef skoðað báðar þessar verksmiðjur og komið m.a. í Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði sl. sumar áður en breytingin átti sér stað. Það er náttúrlega verið að selja allt innbúið í þessum húsum, þ.e. vélarnar, rannsóknastofurnar og jafnframt er líka verið að selja 63 ára reynslu af rekstri síldarverksmiðja og með allri þeirri þekkingu og reynslu sem starfsmenn hafa og það er líka verið að selja ákveðna viðskiptavild.
    Inn í þetta fléttast svo sú áhætta sem eins og hér hefur réttilega komið fram fylgir rekstri af þessu tagi og þessi 63 ára saga ber vott um, en ég spyr mig samt sem áður: Eru 725 millj. kr. sanngjarnt verð fyrir þessar gríðarlegu eignir og þá gríðarlegu möguleika sem þessar verksmiðjur hafa? Auðvitað kemur þarna inn í að fyrirtækið er skuldugt, skuldir upp á um það bil 1.300 millj. kr. en eignirnar eða matið á sjálfum eignunum er þá langt umfram skuldirnar og þessar skuldir stafa að hluta til vegna mjög nýlegra fjárfestinga sem hafa gert fyrirtækið mun öflugra og sterkara. Ég hef að sjálfsögðu ekki forsendur til þess að meta það hvort þarna sé um of lágt verð að ræða en mér finnst nú mjög margt benda til þess. Mér finnst alveg með ólíkindum að svona miklar eignir skuli ekki metnar á hærra verð, mér finnst það alveg með ólíkindum.
    Ég hlustaði á fulltrúa VÍB sem sá um þetta mat. Hann skýrði frá því á fundi fjárln. hvernig það hefði farið fram og hvernig að því hefði verið staðið. Hann nefndi það sem síðustu aðferðina til þess að meta verðgildi fyrirtækisins að láta markaðinn ráða og get ég tekið undir það. Þar komum við að þeirri spurningu, fékk markaðurinn að ráða? Gafst í rauninni ráðrúm til þess að leyfa nógu mörgum aðilum að bjóða í verksmiðjurnar, að bjóða í hlutabréfin? Gaf þessi mikli hraði, sem var á verkinu, rétta mynd af verðgildi verksmiðjunnar? Ég leyfi mér að draga það í efa.
    Þá kem ég að síðara atriði, sem ég nefndi hérna áðan, þ.e. hvort rétt hafi verið að málum staðið og eins og fleiri sem hér hafa talað í dag þá hlýtur maður auðvitað að velta fyrir sér hvers vegna lá svona mikið á. Hvers vegna þessi mikli hraði og hvaða áhrif hefur það á markaðsverð fyrirtækis þegar ljóst er að það er pressað á um sölu fyrirtækisins? Það er upp á líf og dauða verið að selja fyrirtækið. Ég get ekki annað en tengt þetta einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar. Það lá fyrir þegar við vorum að ræða frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 að einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar höfðu algerlega mistekist. Samkvæmt því frv. sem þá var lagt fram stefndi í það að eignir ríkisins yrðu seldar fyrir 100 millj. kr. í stað 1.500 millj. Það var sem sagt mínus upp á hvorki meira né minna en 1.400 millj. kr. í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994. Það er náttúrlega ljóst að sá árangur var algert skipbrot fyrir einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og því lá mjög á að reyna að rétta kúrsinn af, selja Síldarverksmiðjur ríkisins hvað sem það kostaði til þess að reyna að forðast þetta skipbrot sem þarna var fram undan. Ég get ekki annað en lýst ábyrgð á hendur hæstv. sjútvrh. fyrir þann mikla hraða sem var á sölunni og ég spyr: Hvers vegna var ekki beðið eftir niðurstöðum úr ársreikningum fyrirtækisins þannig að það lægi fyrir hvernig reksturinn gengi? Hvers vegna var ekki beðið eftir því að loðnuvertíðinni lyki þannig að menn hefðu allt dæmið frammi fyrir sér og sæju hvernig staðan væri?
    Það vakna auðvitað stórar spurningar varðandi þennan hamagang við söluna og þó að það sé alveg ljóst að það var stjórn verksmiðjunnar, stjórn SR-mjöls sem lagði til að það yrði gengið fram með þessum hætti, þá getur maður ekki annað en spurt sig: Hvernig stendur á þessu?
    Þegar frv. um Síldarverksmiðjur ríkisins var lagt fram sagði þar í greinargerð og kemur reyndar margsinnis fram í gögnum og reyndar hefur hæstv. sjútvrh. ítrekaði í ræðu sinni á Siglufirði þegar breytingin á fyrirtækinu átti sér stað, þá var þar margsinnis sagt, með leyfi forseta:
    ,,Meta þarf sérstaklega hvenær aðstæður eru ákjósanlegar til sölu áður en ákvörðun verður tekin þar um.`` Ég hef ekki enn þá fengið svar við þeirri spurningu hvaða ákjósanlegu aðstæður voru til staðar þessa síðustu mánuði ársins 1993. Hvaða ástæða var fyrir því að stjórn SR-mjöls komst að þeirri niðurstöðu að best væri að gera þetta með þessum hætti og með þessum mikla hraða sem raun bar vitni. ( GHelg: Það var gróði af fyrirtækinu.) Já, það kann vel að vera, ég veit að stjórn fyrirtækisins hefur verið ljóst hver staðan var og það er það sem manni finnst erfitt upp á að horfa að fyrirtækið sé selt með þessum stórgróða og það byrjar á því að hann rennur í vasa nýrra eigenda. Þetta er allsérstætt upp á að horfa hvernig þarna er að málum staðið.
    Ég ætla aðeins að koma hér inn á það sem snýr að VÍB. Það kemur fram gagnrýni í skýrslunni á það að ekki skuli hafa verið gerður samningur við fyrirtækið. Því svara forsvarsmenn þess þannig að þeir sendu bréf með ákveðnu tilboði og það var litið á það bréf sem ígildi samnings. Það sem aðallega snýr að VÍB er þetta atriði hvort fyrirtækið hafi verið hæft til þess að meta verðgildið. Ég lít þannig á að þegar vinnan fer af stað, þá var VÍB hæft til þess að vinna þetta verk, en þegar það er komið fram að eigendur Íslandsbanka og hluthafar Íslandsbanka eru inni í þessum hópi, hópi hugsanlegra kaupenda að Síldarverksmiðjunum, þá er VÍB kominn þarna í ákveðin óæskileg hagsmunatengsl þó að ég sé ekki að gera því skóna að eigendur bankans séu á nokkurn hátt að skipta sér af rekstri þessa verðbréfafyrirtækis eða hvernig þar er að verki staðið, þá verður samt ekki fram hjá því horft að þarna voru eigendur þessa fyrirtækis komnir inn í málið og þá hefði auðvitað verið rétt að fyrirtækið drægi sig til baka og aðrir tækju við

þessu verki. Ég held að menn hljóti að verða að horfa betur á þessi mál í framhaldinu ef og þegar kemur að einkavæðingu annarra fyrirtækja. Ég minni á það að við erum hér með tvö einkavæðingarfrumvörp til umfjöllunar í þinginu, um Lyfjaverslun ríkisins og um Áburðarverksmiðju ríkisins. Ef til þess kemur að þær verði seldar þá verður að standa miklu betur að verki en hér hefur verið gert. Þau átök sem hafa orðið í kringum þetta mál eiga að verða okkur víti til varnaðar. Menn verða einfaldlega að vanda sig betur í vinnubrögðum þannig að það sé ekki verið að kalla yfir ríkið og starfsfólk endalaus málaferli. Þetta er að verða sorgarsaga í kringum þessa ríkisstjórn að það eru endalaus málaferli út af öllum mögulegum hlutum.
    Virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum árum horft upp á mikla einkavæðingaráráttu þessarar ríkisstjórnar. Ég get ítrekað það hér enn og einu sinni að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að skoða það rækilega í hvers konar rekstri ríkið eigi að vera. Ríkið á ekki að vera að skipta sér af rekstri atvinnufyrirtækja sem eru í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki svo framarlega sem þar er ekki um það að ræða að reyna að halda verðlagi í skefjum eða halda uppi ákveðinni þjónustu. En þegar um er að ræða fyrirtæki sem þjóna öllum almenningi í landinu eins og Lyfjaverslun ríkisins, þá horfir málið öðruvísi við. Hér var nokkuð breið samstaða um það að breyta Síldarverksmiðju ríkisins á þeim grundvelli að þar er dæmi um rekstur sem á rætur að rekja til fortíðarinnar og svo sem engin rök mæla fyrir að ríkið stundi. Þess vegna vorum við kvennalistakonur samþykkar því að breyta fyrirtækinu en höfðum fyrirvara varðandi starfsmannamálin sem valda vandræðum í hverju málinu á fætur öðru.
    Hins vegar hefur verið þannig að verki staðið í þessu máli að Alþingi hlýtur að segja: Hingað og ekki lengra. Við hljótum því að fresta þeim tveimur málum sem þingið hefur nú til umfjöllunar um einkavæðingu Lyfjaverslunar ríkisins og Áburðarverksmiðju ríkisins.