Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:16:52 (6973)


[21:16]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur skrýtilega út þegar hv. þm. Ólafur Þórðarson er að tala um að það sé verið að blanda pólitík inn í þetta mál. En tildrögin að því að ég fór að líta á þennan lista eru þau að sessunautur minn á ská hinum megin við ganginn hér, hv. þm. Guðni Ágústsson, var að kalla til mín að hæstv. sjútvrh. hefði afhent kolkrabbanum fyrirtækið. Ég fór því að kíkja á þann lista sem innihélt nöfn hluthafa og ég verða að segja að ég sá þar marga vini mína og kunningja og þar á meðal ýmsa frá Siglufirði og frá öðrum stöðum á landinu og þar á meðal einn ágætan framsóknarmann á Siglufirði sem er ágætisvinur minn. Ég var bara mjög ánægður með það að sjá hans nafn á þessum lista. ( SvG: Kolkrabbinn er ekki í Framsfl.)