Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:19:20 (6976)


[21:19]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það komu hér fram tvær alveg ótrúlegar fullyrðingar í máli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Sú fyrri var réttlæting hans á því að halda brunaútsölu á fyrirtækinu eins og lífið lægi við að selja það bara einn, tveir, þrír. Og að bera það á borð að það séu skynsamleg vinnubrögð að neita sterkum áhugaaðilum eins og Akureyrarbæ um nokkurra daga frest gengur ekki upp, hvorki í markaðslegu tilliti né á nokkurn hátt. Það vita allir. Þá gengur mönnum eitthvað annað til en að fá hæsta verð fyrir fyrirtækið.
    Svo kom þetta með verðið. Að það mætti í raun og veru segja að fyrirtækið hefði verið selt á uppsprengdu verði og alveg bara óskaplegt hvernig farið hefði verið með þessa menn að okra svona á þeim og fyrirtækinu. Að heyra það sagt og rökin sem hv. þm. flutti voru náttúrlega alveg ótrúleg þegar staðreyndin liggur á borðinu að ríkið hafði nettó 130 millj. kr. út úr því að afhenda þetta mikla fyrirtæki með endurstofnverði upp á líklega 4 milljarða kr. og splunkunýjar verksmiðjur eins og á Seyðisfirði og afkastamestu verksmiðju landsins eins og á Siglufirði. Þetta er þvílíkt fleipur og þvílíkur málflutningur að ég held að hv. þm. ætti ekki að segja meira í þessari umræðu.