Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:23:15 (6979)


[21:23]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar hv. þm. hefur verið þegar við löbbuðum saman í gegnum verksmiðjuna á Eskifirði. Það var verið að gera þar miklu meira heldur en að skipta um þurrkara, hv. þm. Það var verið að gera gagngerar breytingar á þeirri verksmiðju til þess að gera henni kleift að framleiða hágæðamjöl. Það var verið að setja í þessa verksmiðju 200--300 millj. til þess að gera hana í stand til að vera samkeppnisfær. Ég fullyrði að það væri hægt að gera Hafsíldarverksmiðjuna og Bolungarvíkurverksmiðjuna klárar í hágæðamjölsframleiðslu fyrir svipaðan pening. Þetta eru algerlega pottþétt rök og pottþéttar staðreyndir fyrir því að sýna fram á það að kaupverðið á SR var frekar of hátt heldur en of lágt. Styrkur SR liggur nefnilega ekki í hverri einni verksmiðju um sig, heldur í því að þetta er keðja af verksmiðjum sem hægt er að reka saman með miklu rekstraröryggi allt eftir því hvernig loðnan gengur á hverri vertíð.