Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:48:08 (6991)


[21:48]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. foreti. Getur það verið að menn láti sig það engu skipta hverjir fá að kaupa Síldarverksmiðjur ríkisins? sagði hæstv. ráðherra hér áðan. Og síðan talaði hann um að það hefði verið mjög mikilvægt og eitt það mikilvægasta af þessu öllu að þetta lenti í réttum höndum.
    Ég held að það sé ástæða til að velta því fyrir sér hvort skýringanna á því hvernig með þetta mál var farið sé að leita í orðum eins og þessum. Hér í skýrslunni um SR-mjöl segir t.d. þar sem vitnað er í stjórn fyrirtækisins:
    ,,Ekki er útilokað að aðrir fjárfestar, t.d. stórfyrirtæki og lífeyrissjóðir svo einhverjir séu nefndir, hafi áhuga á að hasla sér völl á nýju sviði. Sveitarstjórnir Reyðarfjarðar og Raufarhafnar hafa lýst því yfir að ef brjóta eigi fyrirtækið upp (sem sveitarfélögin eru reyndar alfarið á móti) hafi þau áhuga á ,,sinni`` verksmiðju. Hins vegar má velta fyrir sér þeirri spurningu hvort það flokkist undir einkavæðingu að sveitarfélög kaupi SR-mjöl hf.``
    Gæti það nú verið að ástæðuna fyrir því að ekki mátti skoða tilboð frá Akureyrarbæ væri að finna í þessari skoðun stjórnar Síldarverkmsiðja ríkisins?