Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:52:45 (6995)


[21:52]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að heyra það þegar hv. þm. Svavar Gestsson kallar það persónulegar árásir þegar rifjað er upp hversu hraustlega og djarflega hann á sínum yngri árum barðist fyrir sósíalisma. ( GHelg: Ég líka.) Og hv. þm. Guðrún Helgadóttir og er kannski svolítið undarlegt að þessir hv. þm. skuli ekki einmitt þakka fyrir það að einhver skuli muna eftir þeirra góðu frammistöðu. En skýringin er kannski sú að þeir finna nú eftir á að þar hafi verið falskur strengur sleginn ( GHelg: Langt í frá.) og átti sig á því að sá mikli sálmasöngur sem þá kvað við af þeirra munni á nótum Þjóðviljans hafi kannski ekki allur verið hreinn.
    Hitt er svo örlítið skemmtilegt og gaman að því þegar menn eru hér að reyna að eggja mig með því að þeir Akureyringar skuli ekki hafa keypt Síldarverksmiðjur ríkisins. Þeim stóð það áreiðanlega til boða eins og öðrum að hafa samband við þennan hóp. Það liggur fyrir að Akureyrarbær hefur lagt mjög mikið fjármagn til atvinnurekstrar og fyrirtækja nú á síðustu missirum. (Forseti hringir.) Ég hef ekki rætt það sérstaklega en ég hygg að hann hafi ekki verið aflögufær um þær fjárhæðir sem hv. þm. Alþb. ætluðust til að fá fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins.