Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 22:31:49 (7000)



[22:31]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Í því máli sem er til umræðu í kvöld, skýrslu um sölu ríkisins á SR-mjöli hf., hafa umræðurnar gengið nokkuð vítt um völlinn. Ég mun aðeins taka á þremur þáttum þessa máls. Í fyrsta lagi þeim aðfinnslum almennt sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, á þeirri gagnrýni að of hratt hafi verið staðið að málinu. Ég mun koma inn á athugasemdir Ríkisendurskoðunar um hið rétta verð, sem mörgum þingmönnum hefur orðið tíðrætt um í kvöld, og ég mun einnig minnast lítillega á hlut Akureyrarbæjar í þessu máli.
    Að sjálfsögðu gerir stjórnarandstaðan fyrst og fremst athugasemdir við það að í skýrslu Ríkisendurskoðunar koma fram fjölmargar ábendingar um að ekki hafi að öllu leyti verið staðið að þessu máli með hagsmuni ríkissjóðs í huga. Stjórnarandstaðan reynir fyrst og fremst að gera sér mat úr því sem hún leyfir sér að lesa úr þessari skýrslu sem gagnrýni á að ekki hafi verið staðið að málum með hagsmuni ríkissjóðs í huga. Að sjálfsögðu er það svo að Ríkisendurskoðun lítur á þetta mál frá upphafi til enda frá þröngu sjónarhorni ríkissjóðs enda ber Ríkisendurskoðun að gera það. En þá vaknar sú spurning hvort þetta mál snúist eingöngu um hag ríkissjóðs. Þó að Ríkisendurskoðun geti litið svo á að málið snúist ekki um annað þá vaknar sú spurning hvort ríkisstjórnin eða þingið geti litið svo á að málið snúist um hagsmuni ríkissjóðs eingöngu eða hvort þar eigi að koma til álita hagsmunir fleiri aðila.
    Ég tel óhjákvæmilegt að beina athygli þingsins að því að sala hlutabréfa í SR-mjöli hf. er stærsta einkavæðingarmál sem ríkisstjórnin hefur haft með höndum til þessa. Fyrirtækið er að því leyti til sérstætt að það rak verksmiðjur í fjórum sveitarfélögum, með öðrum orðum vítt og breitt um landið, og hagsmunir þessa fyrirtækis tengdust því hagsmunum íbúa í byggðarlögum víða um landið. Það var þess vegna ekki einungis um hagsmuni ríkissjóðs að ræða í þessu máli þótt Ríkisendurskoðun hafi fulla heimild til þess að líta á málið frá þeim þrönga sjónarhóli. Það var að sjálfsögðu einnig um þjóðhagslega hagsmuni að ræða en einnig um verulega atvinnu- og byggðahagsmuni að ræða sem tengdust sölu þessa fyrirtækis. Fólkið sem býr á stöðum þar sem verksmiðjur SR-mjöls hf. starfa hafði mikinn áhuga á þessu máli og líka miklar áhyggjur af því. Það er alveg ljóst að það var fylgst með framgangi þessa máls af miklum áhuga en jafnframt með nokkrum áhyggjum yfir því hvernig það mundi þróast. Í því erfiða atvinnuástandi sem hér ríkir var að sjálfsögðu mjög brýnt að vinna að málinu með tilliti til hinna margvíslegu hagsmuna sem tengdust því. Hér var sem sagt á ferðinni afar viðkvæmt mál sem hefði hæglega getað orðið brennandi deilumál milli byggðarlaga eða landshluta.
    Í frv. til laga um stofnun hlutafélags sem tæki við rekstri Síldarverksmiðja ríkisins kom þessi þáttur málsins fram í athugasemdum með 3. gr., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skal við söluna stefnt að dreifðri hlutafjáreign þannig að enginn einn aðili eignist meiri hluta. Jafnframt skal við söluna sérstaklega horft til heimamanna og starfsmanna. Á þeim stöðum þar sem verksmiðjurnar eru starfræktar skal óskað eftir viðræðum við heimamenn og/eða samtök þeirra um hugsanleg kaup á hlutabréfum.``
    Upplýsingar um þetta atriði málsins höfðu borist frá lögmönnunum Benedikt Sveinssyni og Jónasi Aðalsteinssyni sem svar við bréfi Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka hf. Þar kom fram að starfsmönnum félagsins yrði gert kleift að kaupa hlut í félaginu og að starfsmannafélag verksmiðju SR-mjöls hafi lýst yfir stuðningi við kaup hópsins á hlutabréfum í félaginu. Svo var einnig um þau sveitarfélög sem verksmiðjur SR eru staðsettar í.
    Það er rétt að benda sérstaklega á það að sá hraði sem hafður var á málinu tengist að sjálfsögðu því hversu miklir hagsmunir voru í héraði við það hvernig málið gengi fram. Og það vekur nokkra undrun mína að heyra hv. þm., ég nefni sérstaklega hv. þm. Jón Kristjánsson sem mæltist til þess að beðið hefði verið í eitt ár með að ganga frá kaupunum, að þeir skulu alveg horfa fram hjá hagsmunum heimabyggðanna sem höfðu atvinnu af því að þessi fyrirtæki gengju vel og að framtíð þeirra yrði tryggð.
    Þegar viðræður voru teknar upp við lögmennina og kaupsamningur var gerður var samið um breytingar á kaupendahópnum sem upphaflega hafði verið tilgreindur. Í þeim viðræðum bættust við 77 starfsmenn SR-mjöls hf. og þau fjögur sveitarfélög þar sem verksmiðjurnar voru starfandi ásamt fjölda annarra heimamanna. Auk átta lífeyrissjóða og annarra fjárfesta var með þessum hætti verið að tryggja mikla dreifingu hlutafjáreignar þar sem enginn einn aðilinn ræður yfir stærri hlut en 7,5% hlutafjárins. Kaupendurnir voru samtals 177.
    Þegar litið er yfir listann sem birtur er í fylgiskjölum yfir eigendur fyrirtækisins fer það ekki fram hjá neinum hve vel hefur tekist til að koma til móts við þá miklu og dreifðu hagsmuni sem tengdust sölu fyrirtækisins.
    Það er kannski rétt að menn hugleiði það einnig að með þessum hætti varð mjög almenn þátttaka í kaupum á félaginu af hálfu heimamanna. Mér telst svo til að um 27 aðilar á Reyðarfirði, 31 aðili á Siglufirði, 33 aðilar á Seyðisfirði og 21 aðili á Raufarhöfn séu meðal hluthafa á hluthafaskránni sem birt er í fylgigögnum með þessu máli. Langflestir þessara aðila eru einstaklingar sem leggja sína eigin fjármuni, mismunandi mikla en allt frá 20 þús. og upp í nokkur hundruð þús. kr. í hlutafé í félaginu. Og þótt hlutur hvers og eins sé að jafnaði ekki mjög stór þá endurspeglar þessi dreifða hlutafjáreign og þessi mikla þátttaka heimaaðilanna þá miklu staðbundnu atvinnuhagsmuni sem málinu tengjast. Að öðru leyti en þessu dreifist hlutafjáreignin mjög víða um landið og kemur því þetta fyrirtæki til með að hafa rætur í nánast flestum byggðarlögum og landshlutum.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt annað en að undirstrika það hversu mikilvægt það er að þessu máli skuli hafa verið lokið með þeim hætti að mjög víðtæk sátt, hygg ég, hafi myndast um það í heimabyggðum verksmiðjanna að svona væri á málinu haldið.
    Ein af höfuðástæðunum fyrir því að nokkuð hratt var gengið fram í málinu er sú staðreynd að það voru mjög margir í heimabyggðunum sem töldu sínum hagsmunum nánast teflt í uppnám ef lengi væri beðið eftir úrlausn málsins. Að þessu leyti er einnig rétt að minna á það að stjórn SR-mjöls ályktaði um það sérstaklega að málinu skyldi hraðað af þessum ástæðum.
    Ég ætla síðan að koma að því er menn hafa margsinnis vikið að í þessari umræðu í dag að fyrirtækið hafi verið selt á undirverði. Ég endurtek það sem ég hef þegar sagt í andsvari að þess er ekki að finna neinn stað í skýrslunni að fyrirtækið hafi verið selt á undirverði. Það kemur skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að við mat á fyrirtækinu var notuð ákveðin aðferð. Sú aðferð leiddi til ákveðins svigrúms. Menn mátu það svo að verðmæti fyrirtækisins gæti verið á bilinu tæplega 700 millj. kr. og upp í rúmlega 1 milljarð. Aðferðin við að meta þetta er ekki gagnrýnd af Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun lætur ekki gera neitt sjálfstætt mat á virði fyrirtækjanna. Engu að síður telur Ríkisendurskoðun sig hafa heimild til þess að fullyrða að á einhverju ákveðnu bili á svigrúmi matsins sé hið rétta verð. En í markaðsviðskiptum hefur Ríkisendurskoðun að sjálfsögðu alls ekki nein tök á því að meta hvað er hið rétta verð. Það er ekki neitt rétt verð í þessu tilfelli. Það er til mat þeirra aðila sem að sölunni standa á því innan hvaða verðbils slík verðlagning geti verið skynsamleg og síðan verður söluaðilinn að vega það og meta þegar tilboð liggur fyrir hvort hann gengur að því eða ekki. Tilboð lá fyrir frá þeim aðila sem hafði verið metinn með hæft tilboð og var gengið að því. Auðvitað var það mat kaupenda að ekki væri bjóðandi meira í fyrirtækið en þetta. Og svo geta menn deilt endalaust um það í þingsalnum hvort þetta hafi verið hið rétta verð eða ekki. En enginn er þess umkominn að ákveða hvað er rétt verð fyrir fyrirtæki af þessari gráðu í markaðsbúskap, hvorki Ríkisendurskoðun né einstakir þingmenn, virðulegi forseti.
    Það þarf ekki að geta þess neitt sérstaklega að auðvitað hlýtur sú mikla óvissa sem er um þennan rekstur og rekstrargrundvöll fyrirtækja af þessu tagi að auka það bil, það svigrúm, sem menn hafa um að skilgreina raunvirði félagsins.
    Að lokum vil ég koma aðeins inn á það að hér hefur verið talað nokkuð fjálglega um það að Akureyrarbær hafi ekki haft tækifæri til að koma með tilboð og Akureyrarbæ hafi verið skákað burtu af tilboðsmarkaðnum. Ríkisendurskoðun kemur inn á þetta lítillega í sinni skýrslu en fer ekki um það mörgum orðum, segir aðeins, með leyfi forseta, á bls. 36 um opnun tilboða:
    ,,Bréf kom frá Akureyrarbæ en það var ekki tilboð heldur beiðni um að opnun yrði frestað til 20. jan. 1994.``
    Það kemur ekki fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem er mergurinn málsins í sambandi við þennan þátt, að tilboðsfresturinn, eins og fram hefur komið í máli hæstv. sjútvrh., rann út kl. 16.00. Sá tilboðsfrestur hafði verið ákveðinn fyrir fram og tilkynntur og beiðni Akureyrarbæjar barst ekki áður en fresturinn rann út. Hún kom eftir að fresturinn hafði runnið út, raunar rétt eftir að fresturinn rann út þá barst þessi beiðni á símbréfi.
    Auðvitað er það svo að ef menn setja slíkan frest þá verður að halda fast við hann og það er ekki hægt að samþykkja það að einn aðili fái að skila tilboði eftir að fresturinn rennur út. Það gengur ekki. Það mætti segja mér ef það hefði gerst þá hefði Ríkisendurskoðun fundið sér tilefni til harðrar gagnrýni.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram, virðulegi forseti, í umræðum um þetta mál.