Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 22:47:22 (7001)


[22:47]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er fyrst út af ummælum hv. 5. þm. Norðurl. e. að hann undraðist þau ummæli hv. þm. Jóns Kristjánssonar að hugsanlegt hefði verið að finna annan heppilegan tíma fyrir sölu á þessu fyrirtæki, t.d. að fresta því um hálft ár eða jafnvel eitt ár af því að með því hefði hann verið að setja fyrirtækið í uppnám, afkomu þess fólks sem vinnur við fyrirtækið í uppnám og leiddi að því líkur að það hefði eitthvað það verið að gerast í fyrirtækinu nú um áramótin eða nú þessa dagana eða vikurnar sem hefði leitt til þess að fyrirtækið var bara að stoppa eða allt að hrynja. Ég skildi ekki hvaða athugasemd þetta var hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. og finnst hún algjörlega úr lausu lofti gripin.
    Hinu langar mig að koma að einu sinni enn. Það er varðandi matið á verði fyrirtækisins. Auðvitað er það rétt eins og hv. þm. sagði áðan og ég hef lýst líka að þetta er spurningin um það hvað eigandinn telur ásættanlegt, hvað hann vill selja fyrirtækið á. Ég hef lýst því yfir hér og ég hygg að það séu margir hv. þm. mér sammála um það að okkur finnst að valin hafi verið tala sem er í lægri kantinum ef talan er ekki hreinlega óásættanleg en hæstv. sjútvrh., sem fer með málið, hefur talið þetta ásættanlegt og ákvað að selja fyrirtækið á því verði.
    Hins vegar komu fram í greinargerð Ríkisendurskoðunar, sem fjárln. fékk í dag um þetta mál, miklar, við getum sagt vangaveltur um að það hefði kannski átt að koma betur fram í umsögn og áliti Verðbréfamarkaðarins hvernig fyrirtækið liti út eftir einkavæðingu, eftir sölu og vitnað til verklagsreglnanna ríkisstjórnarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Áður en viðkomandi ráðuneyti tekur ákvörðun um sölu fyrirtækisins fer fram ítarleg úttekt á rekstri fyrirtækisins og rekstrarumhverfi þess og hvernig einkavæðing hefur áhrif á þessa þætti.`` (Forseti hringir.) --- Og síðar segir --- eina málsgrein, virðulegi forseti, með leyfi: ,,Ekki er sjálfgefið að viðbótarábati sem hlýst af breyttu rekstrarfyrirkomulagi falli allur í hlut kaupanda heldur má eðlilegt telja að seljandi áskilji sér hluta hans.``
    Það er þessi skoðun (Forseti hringir.) sem Ríkisendurskoðun er að koma á framfæri í skýrslu sinni og hún telur ekki koma nægilega vel fram í áliti VÍB. Ríkisendurskoðun finnur að því í skýrslu sinni að söluaðili hafi ekki farið að því ákvæði verklagsreglnanna (Forseti hringir.) að meta hvernig einkavæðingin hefur áhrif á þessa þætti.