Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 22:53:15 (7005)


[22:53]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það eru tíðindi að hv. þm. Tómas Ingi Olrich flokkar Sigbjörn Gunnarsson með stjórnarandstöðunni. Það má merkilegt vera ef hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, formaður fjárln., er almennt flokkaður með stjórnarandstöðunni. Ég hygg að það séu tíðindi þegar menn halda þannig á máli í ræðustól að kalla þá alla stjórnarandstæðinga sem tala gegn málinu.
    Annað: Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að hvorugt tilboðið sem barst væri fullnægjandi. Akureyrarbær var af þeirri ástæðu einfaldlega með inni í næstu rúllettu hefði verið haldið áfram. Það hefði þess vegna engin gagnrýni komið frá Ríkisendurskoðun. Það er gjörsamlega tilbúið að það hefði kostað einhverja gagnrýni þó að það hefði verið boðið út á nýjan leik og látið reyna á það hvort að menn hefðu þá lagt inn fullnægjandi tilboð. Ég skil ekki þennan málflutning nema þá að reynt sé að fela það hér og reynt að fela það fyrir norðan að þingmenn Sjálfstfl. úr Norðurlandskjördæmi eystra voru andvígir því að Akureyrarbær keypti ásamt öðrum þetta fyrirtæki. Það er málflutningurinn sem þeir eru orðnir uppvísir að í kvöld og njóti þeir vel norðan heiða.
    Það er merkilegt að hlusta á það þegar menn tína út úr skýrslu Ríkisendurskoðunar það sem þeir telja að sé rétt, hitt er bara vitlaust. Svona málflutningur á ekki upp á pallborðið hjá mönnum sem vilja halda uppi rökrænni umræðu.