Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 22:55:28 (7006)


[22:55]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð víst að hryggja hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson með því að ég verð að endurtaka hluta af því sem ég sagði hér áðan. Það hefur verið gefin fullnægjandi skýring á því hvers vegna Akureyrarbær fékk ekki frest til þess að bjóða í félagið. Það hefur verið gefin fullkomlega gild skýring á því að beiðni hans um frestun barst eftir að fresturinn rann út og þessi ágæti þingmaður hlýtur að skilja það að slík viðhorf hljóta að vera tekin gild.
    Að því er varðar svo meintan fjandskap okkar þingmanna í Norðurlandskjördæmi eystra við það að hagsmunir Akureyringa hafi verið fyrir borð bornir í þessu máli þá get ég ekkert gert að því þó hv. þm. kjósi að fara sömu leið og sá prúði riddari Don Kíkóti, sem á reyndar ekki holdarfarið sameiginlegt með þessum virðulega þingmanni, hann réðist á vindmyllur. Í þessu tilfelli er þetta hugarburður þingmannsins sjálfs. Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um það að Akureyrarbær hefði haft áhuga á því að bjóða í fyrirtækið á þessum grundvelli en hann fékk ekki tækifæri til þess vegna þess að beiðni hans barst of seint.
    Þess er hins vegar að geta ef litið er yfir hluthafa í skrá yfir hluthafa sem er að finna í fylgigögnum málsins þá sést þar að hagsmunir Akureyringa eru þar inni eins og hagsmunir víða af að landinu. Við höfum þann háttinn á velflestir þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra að við lítum almennt vítt á þessa hagsmuni sem eru í húfi á Akureyri. Þar fara bæði hagsmunir bæjarfélagsins, sem þarf á sínum peningum að halda til ýmissa hluta, en einnig hagsmunir atvinnulífsins sem að hluta til eignaðist hlut í þessu fyrirtæki.