Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 22:57:26 (7007)


[22:57]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er ekki til að hryggja hv. þm. Tómas Inga Olrich að ég sé mig knúinn til að lesa það sem stendur neðst á bls. 8 í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar stendur svo, með leyfi forseta:
    ,,Þegar á heildina er litið telur Ríkisendurskoðun að hvorugt tilboða í hlutabréf í SR-mjöl hf. hafi uppfyllt þau skilyrði sem sett höfðu verið í útboðsskilmálum.``
    Svo mörg voru þau orð. Þar með var ekkert tilboð gilt. Þar með hlaut rúllettan að fara af stað aftur ef menn vildu vinna heiðarlega. Þar með hefði Akureyrarbær átt kost á því að koma inn aftur. Svo einfalt er það mál.
    Auðvitað getur vel verið að stjórnarsamstarfið meiri hlutans á Akureyri hafi verið á þann veg að alþýðubandalagsfulltrúinn hafi viljað kaupa en sjálfstæðisfulltrúarnir verið á móti og hringt suður í sína menn og sagt: Þið stoppið þetta hér. Það getur vel verið. Þess vegna séu þeir svona rólegir að vinna gegn Akureyrarbæ. Þeir hafa viljað koma vitinu fyrir þá fulltrúa sem þar sitja. E.t.v. getur líka ástæðan verið sú að þeir telji bara að þetta séu ekki nógu hæfir menn til að meta hvað Akureyri sé fyrir bestu. Þeir vísu menn séu hér á þingi sem viti hvað Akureyri er fyrir bestu. Þeir taki skynsamlegar ákvarðanir og svo þegar þeir komi norður þá segir þeir þeim einfaldlega frá því: Þið áttuð ekki peninga fyrir þessu, við vissum það, en það er miklu skemmtilegra að falla á þeirri forsendu að þið hafið ekki haft tíma til að gera þetta heldur en að upplýsa það fyrir alþjóð að þið hafið ekki átt peninga til að kaupa.
    Nei, ég hygg að þeir þurfi að endurskoða sinn málflutning, þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra sem tilheyra Sjálfstfl. í þessu máli. Hann er með eindæmum.