Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:17:03 (7011)


[23:17]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nýjasta útgáfan af stefnu Sjálfstfl. í þessu máli, hæstv. forseti, er sú að fyrirtækið hafi verið allt of dýrt. Það hafi verið selt á uppsprengdu, svívirðilegu verði. Næsta tillaga sem verður bersýnilega flutt af hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Einari Guðfinnssyni er um það að lækka verðið og endurgreiða mönnum eitthvað af þessum peningum. Þvílík kokhreysti.
    Veruleikinn er sá að fyrirtækið var selt á 725 millj. kr. 540 millj. höfðu verið greiddar af ríkissjóði til að rétta fyrirtækið við á síðustu missirum. 65 millj. voru hagnaður sem kom í hlut kaupendanna. 15 millj. kr. fóru í kostnað við að einkavæðinguna. Samtals eru þetta 620 millj. kr. Hvað hafði ríkið upp úr krafsinu? 105 millj. kr. fyrir fyrirtæki sem er á endurstofnverði upp á 4--5 milljarða. Svo kemur það eins og einhver frétt frá hv. þm. Einari Guðfinnssyni að það þurfi 50--60 millj. kr. á ári til að fjárfesta í þessu fyrirtæki. Auðvitað þarf að gera við þetta fyrirtæki og sinna því eitthvað, fyrir kannski eins og 10% af endurstofnverði þess eða reyndar er það 1% sem hv. þm. er að tala um.
    Hér er verið að setja hlutina upp með ótrúlegum hætti að mínu mati og það versta er það að ungur þingmaður í fjárln. fyrir Sjálfstfl. skuli ekki, þegar hann kemur upp í andsvari á eftir minni ræðu, taka undir það aðalatriði að menn setjist niður og semji verklagsreglur þannig að vinnubrögð af því tagi sem hér er um að ræða, þegar verið er að gefa ríkisfyrirtæki, endurtaki sig ekki framar. ( SJS: Hvað á að endurgreiða mikið?)