Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:21:27 (7013)


[23:21]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú ekki eins og guð hafi sagt það þó það liggi fyrir í verklagsreglum einkavæðingarnefndar. Auðvitað eru hlutirnir þannig að það þarf að fara yfir þessa hluti og reyna að skapa um það pólitíska samstöðu á Alþingi. Einhverjar verklagsreglur sem eru samdar uppi í Stjórnarráði af Sjálfstfl. svo að segja einvörðungu koma í raun og veru þessu máli mjög lítið við, en ég spyr: Af hverju var þá ekki þessum góðu reglum fylgt úr því að þær eru eins góðar og hv. þm. var að segja?
    En úr því að hv. þm. vænir mig um það að fara með rangt mál þá les ég fyrir hann á bls. 7, með leyfi forseta, en ég vona að þingmaðurinn sé kominn þangað, bls. 7, önnur greinarskil. Hér stendur:
    ,,Samanburður á mati tilboðsgjafa á framtíðartekjuvirði SR-mjöls hf. og mati VÍB bendir til að verðmæti fyrirtækisins hafi verið hærra en endanlegt kaupverð.``