Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:56:17 (7023)


[23:56]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja út af fyrirtækinu að ég hafi samþykkt töluna 105. Ég hef samþykkt hana reikningslega. Það er ekkert rangt við það sem hv. þm. sagði þegar hann lagði töluna saman, en það átti eftir að núvirða skuldbindingarnar og ég vil taka það fram að fyrirtækið hefur verið rekið með gífurlegum halla, 90 millj. halla á ár, undanfarin ár og það verður auðvitað að taka tillit til þess.
    Í öðru lagi er vitnað til bls. 13 í greinargerð frá Ríkisendurskoðun. Ég vil bara benda á að í klausunni sem tekin er úr þessu minnisblaði kemur ekkert fram sem bendir til þess að þeir sem í hópnum voru hafi gefð upplýsingar til Jónasar Aðalsteinssonar og Benedikts Sveinssonar jafnvel þótt Jónas Aðalsteinsson hafi beðið um það. Ef þetta er lesið grannt þá veit ég að hv. þm. hlýtur að samþykkja það sem ég sagði hér áðan að það er ekkert í textanum sem sýnir fram á það að þau mótmæli sem komu frá starfshópnum séu röng.