Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:57:18 (7024)


[23:57]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. spurði hvort eðlilega hefði verið staðið að sölunni. Það er búið að sanna það 100 sinnum úr þessum ræðustól í dag að svo var ekki. Nú hótar hann Ríkisendurskoðun og segir að hún geti skaðast af þessu máli.
    Hann spurði líka hvort söluverðið væri eðlilegt. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 24 kemur fram að verðmat VÍB miðað við tekjuvirðisaðferð sé á bilinu 695--1.111 millj. kr. Í kaupsamningnum sem var undirritaður hinn 29. des. er söluverð hlutabréfanna 725 millj. Greiðslur eru hvorki verðtryggðar né vaxtaberandi. Sé kaupverðið núvirt miðað við 10% ávöxtunarkröfu kemur í ljós að núvirt kaupverð er um 664 millj. og því vaknar sú spurning hvort þetta kaupverð sé ekki lægra en lægstu mörk í verðmati VÍB. Hinir nýju eigendur SR-mjöls hafa ákveðið skömmu eftir þeir eignuðust félagið að greiða sér 10% arð eða 65 millj. sem var næsta auðvelt því að í árslok 1993 er handbært fé félagsins 255 millj. kr. Og þá kemur mjög til álita að líta á þessa arðgreiðslu til hluthafanna sem lækkun á kaupverði þeirra á hlutabréfunum. Sé það gert er eiginlegt kaupverð hlutabréfanna í hendi kaupenda um 600 millj. kr. og það er ekki eðlilegt kaupverð.