Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:02:30 (7028)


[00:02]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Varðandi umræður sem hafa verið um verð fyrirtækisins vil ég benda á bls. 23 í skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem var dreift hér í dag. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisendurskoðun hafði aðgang að rekstraráætlunum bjóðanda og gat á þann hátt núvirt fjárstreymi á sama hátt og VÍB. Niðurstaða þess mats í samanburði við mat VÍB miðað við 15 og 20% ávöxtunarkröfu var eftirfarandi.`` Þar kemur fram að Jónas Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður fyrir hönd fjárfesta metur fyrirtækið á 1.090 millj. kr. miðað við 15% ávöxtun og 958 millj. kr. miðað við 20% ávöxtun. Þetta er mat kaupendanna. Síðan geta menn leikið sér að tölum um það hvort þetta hafi verið of hátt eða lágt verð. Ég held að ekki sé ofmælt að verðið sé tortryggilegt, ef svo má segja.