Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:09:26 (7034)


[00:09]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er nú komið svo fyrir hæstv. ráðherra að hann hvorki tekur eftir því hvað aðrir segja né man stundinni lengur hvað hann sjálfur sagði. Ég sagði að Sjálfstfl. hefði skipað núv. ríkisendurskoðanda. Ég úrskurðaði ekki um það hvar hann væri í pólitík. Það hefur aftur á móti nú verið upplýst að á því hefur verið tékkað áður en skipunin fór fram.
    Hins vegar getur hæstv. ráðherra ekki hlaupið frá því að hann lýsti því yfir að hann væri að tala fyrir hönd alls þingsins þegar hann óskaði eftir því að við eignuðumst ríkisendurskoðun sem hægt væri að treysta. Þessi setning er út í hött nema sá skilningur sé í það lagður, sem á bak við býr, skoðun ráðherrans að í dag eigum við ekki slíka ríkisendurskoðun. Það var þetta sem mér þótti makalaus ósvífni.
    Það er umhugsunarefni að það er þá upplýst að það voru sjálfstæðismenn sem lögðu mat á söluna á Þormóði ramma og Siglósíld. (Forseti hringir.) Forseti hefur barið í bjölluna. Hann hefur gert það áður. --- Hvernig hefði skýrslan litið út núna ef það hefði verið sósíalisti sem hefði samið skýrsluna fyrir Ríkisendurskoðun?