Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:46:41 (7042)


[00:46]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram hefur nú staðið alllengi og satt best að segja hafa komið fram furðulegar kenningar af og til. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson komst að þeirri niðurstöðu

að verðið væri allt of hátt. Það verður ekki skilið á þann veg en hann telji að Benedikt Sveinsson hafi ekki kunnað fótum sínum forráð í þessum kaupum og dregið heilan hóp manna með sér til að fjárfesta á óeðlilega háu verði. Það er mikil kokhreysti hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, þó hann sé framkvæmdastjóri Verslunarráðs, að halda fram öðrum eins þvættingi.
    Einn af fjármálamönnum Framsfl. sem ég kynntist ungur að árum sagði við mig: ,,Það skyldi enginn maður vanmeta mann af Engeyjarætt.`` Hann sagði þetta ekki einu sinni heldur tvisvar. Og árásirnar sem komu fram frá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni á hendur Benedikt Sveinssyni með svona yfirlýsingum eru högg fyrir neðan beltisstað og honum ekki sæmandi.
    Ég ætla að bæta því við að mér þótti það nokkuð langt seilst í vopnaburði þegar hv. þm. Tómas Ingi Olrich, sem ég þarf ekki að taka fram að er læs, við vitum það öll að hann er læs, neitar að draga þá ályktun sem hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson staðfesti þó í sinni ræðu að Ríkisendurskoðun fullyrti að kaupverðið væri of lágt. Það er hægt að kalla menn kommúnista, það er hægt að skamma mig fyrir það að ég sé á móti verkamönnunum á Raufarhöfn og Siglufirði, en hvaða sakir eru það sem valda því að formaður fjárln. ákveður að bera sannleikanum vitni í málinu? Fyrir hvað er það sem hann situr uppi með það að vera kallaður stjórnarandstæðingur fyrir vikið? ( SJS: Það er hrósyrði.)
    Það er dálítið sérstætt að sjálfstæðismenn standa frammi fyrir þeirri staðreynd að annar stjórnarflokkurinn hefur látið sinn talsmann í þessari umræðu á mjög prúðmannlegan hátt en með skipulegum hætti koma því á framfæri að samþykkt ríkisstjórnarinnar um leikreglur hafi verið brotin, að Akureyrarbæ hafi með óeðlilegum hætti verið ýtt út af borðinu af því að það hafi engin tilboð komið sem stóðust þær kröfur. Og ég hygg að hæstv. sjútvrh. telji að sér hafi enginn greiði verið gerður með málflutningi hæstv. landbrh. Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. landbrh. ýtti öllum hugmyndum um verð til hliðar. Það var ekki nema eitt aðalatriði í málinu. Fyrirtækið væri í góðum höndum. Sjálfur stóð hæstv. samgrh. að því að selja Ríkisskip og seldi það til Samskipa. Var hann þá að beita sér fyrir því að það væri í góðum höndum að hans dómi? Ég veit ekki hvaða hugsun liggur á bak við þetta. Ég veit það aftur á móti að hv. þm. Björn Bjarnason hafði þá skynsemi til að bera að blanda sér ekki í þessa umræðu. Þessi umræða á ekki að standa um það hvort þeir sem keyptu séu æskilegir eða óæskilegir kaupendur. Það hefur enginn af þeim sem hér hafa talað og gagnrýnt þetta mál haldið því fram að þeir séu óæskilegir kaupendur. Því hefur verið haldið fram að þeir hafi fengið þetta keypt á óeðlilega lágu verði og það er allt annað.
    Ég vil undirstrika eitt: Þegar hæstv. ráðherra Halldór Blöndal vill halda því fram, og þeir eru margir fleiri sem hafa viljað halda því fram, að það sé óeðlilegt að selja hlutabréf, það verði að selja fyrirtækið allt, þá eru þessir menn í reynd að segja að leikreglur hins vestræna lýðræðis, m.a. aðalleikreglurnar í sölu hlutabréfa í Bandaríkjunum, séu rangar, að láta markaðinn meta verð hlutabréfanna. Það eigi að selja fyrirtækin í heilu lagi. Er þá ekki verið að blekkja almenning þegar verið er að hvetja hann til að taka þátt í kaupum á hlutabréfum í gegnum hlutabréfamarkað á Íslandi? Er þá ekki verið að blekkja? Önnur reglan getur ekki verið svo heilög að hún útrými hinni.
    Hvers vegna lá svona rosalega mikið á að selja? Hver er skýringin? Hvers vegna voru allir frestir hafðir styttri en þegar menn eru að tala um miklu minni verðmæti? Því miður læðist að manni sá grunur að það séu ekki allir hlutir sagðir í þessu máli. Hæstv. landbrh. talaði á þann veg að ég er ekki lengur viss um að þegar ég beindi orðum mínum til hæstv. sjútvrh. af fullum þunga þá hafi ég verið að skamma réttan aðila. Er hugsanlegt að hæstv. sjútvrh. hafi aðeins verið hlýðinn þjónn en ekki gerandinn í þessari sölu? Er hugsanlegt að það vald sem samkvæmt lögunum átti að vera hjá hæstv. sjútvrh. hafi í reynd verið í annarra höndum? Hvers vegna vantreystir hæstv. landbrh. hæstv. sjútvrh. til að halda uppi vörnum hér í kvöld og ryðst fram þó að málið heyri ekki undir hann? Hann er með aðdróttanir varðandi Byggðastofnun. Ég þori fullkomlega að bera mín verk þar saman við verk hæstv. ráðherra Halldórs Blöndals. Hann er með aðdróttanir varðandi það að þeir sem tali og krefjist þess að leikreglur séu virtar séu á móti verkamönnum norður í landi. Er hæstv. ráðherra maður til að standa við svona yfirlýsingar? Er hann maður til að standa við svona aðdróttanir? Ég segi nei. Hann er enginn maður til að standa við svona aðdróttanir. Þær eru honum til minnkunar. Svo hreint er það mál.
    Það þarf að ræða þetta mál efnislega og það sem gagnrýnt hefur verið efnislega í þessu er að leikreglur hafa ekki verið virtar. Það þýðir ekkert að segja eins og hæstv. fjmrh.: Við gerðum þetta hér um bil rétt. Við gerðum þetta betur en áður var gert. Það er framför hjá okkur. Það er aldeilis lögfræðispeki sem liggur á bak við þetta. Ef menn lenda nú í annað skiptið hjá dómara fyrir afbrot og segja: Ég stal miklu minna núna en seinast, ætli það sé talin góð málsvörn? Nei. Annaðhvort eru menn að setja lög til að fara eftir þeim og það verður að segja um hæstv. sjútvrh. sem jafnframt er dómsmrh. að það var til fyrirmyndar hjá hæstv. ráðherra á sínum tíma að beita sér fyrir því að sett væru stjórnsýslulög. Það er ekkert vafaatriði að þegar farið verður yfir hans sögu í þessari ríkisstjórn, þá ber það af langt fyrir ofan allt sem hæstv. ráðherra hefur lagt til, að hafa beitt sér fyrir setningu stjórnsýslulaganna. Þess vegna er það enn þá erfiðara að þurfa að horfa upp á þá staðreynd að þegar kemur að því að ráðherrann sem ætlar öðrum að fara að reglum kemur sér sjálfur undan því að virða leikreglur. Það er tvöfalt siðgæði. E.t.v.er skýringin sú, eins og ég gat um hér áðan, að hæstv. ráðherra hafi aðeins verið hlýðinn þjónn í þessu máli. Valdið sem skipaði honum fyrir hafi verið það sterkt að hann hafi metið það svo að annaðhvort væri að hlýða eða að stóllinn væri í hættu. Auðvitað getur það verið að menn telji að þá sé réttara að verja stólinn og trúa því að

þeir geti gert svo margt jákvætt að þó þeir virði ekki þessar leikreglur, þá geti þeir komið í veg fyrir annan skaða og meiri. Það má vel vera að hæstv. ráðherra hafi hugsað svo. En eftir stendur að það eru sjálfstæðismenn innbyrðis sem deila um þessa framkvæmd. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að ríkisendurskoðandi væri sjálfstæðismaður. Ég er rengi það ekki, ég veit það einfaldlega ekki. Sé það rétt þá er það þungur áfellisdómur frá skoðanabróður sem þar kemur fram. Dr. Gunnlaugur Þórðarson, sem ég vitnaði í í minni framsögu, kvað upp þungan áfellisdóm og það er spauglaust að Morgunblaðið skuli birta þá grein sem ég vitnaði í og ber nafnið ,,Upptaka á almannafé``. Ef til vill er svo komið að sjálfstæðismenn innbyrðis geri sér grein fyrir því að þeir verða að fara að aga sitt eigið lið.