Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:02:28 (7043)


[01:02]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Fyrst vildi ég víkja örfáum orðum að þeirri staðhæfingu 2. þm. Vestf. að ég hafi beitt mér fyrir flutningi stjórnsýslulaga á Alþingi. Vissulega studdi ég það mál og stóð að því í ríkisstjórn. En eins og hv. þm. er þó mætavel kunnugt var það mál flutt af hæstv. forsrh. sem ríkisstjórnarfrv. En að gefnu þessu tilefni er kannski ástæða til að velta því fyrir sér hvort sömu leikreglur og þar er kveðið á um fyrir stjórnsýsluna ættu ekki að gilda fyrir stofnanir Alþingis, til að mynda Ríkisendurskoðun. Ég hygg að hægt hefði verið að komast hjá margs konar misskilningi varðandi umfjöllun um þetta mál ef til að mynda andmælaréttarreglan gilti í meðferð og vinnslu skýrslu af þessu tagi þannig að aðilar máls ættu þess kost að koma að athugasemdum á frumstigi þannig að Ríkisendurskoðun geti áður en hún kemst að endanlegri niðurstöðu tekið tillit til þeirra röksemda sem fram eru færðar. Það held ég að væru miklu betri og vandaðri vinnubrögð og alveg spurning hvort þessar meginreglur stjórnsýslulaganna ættu ekki einmitt að eiga líka við um stofnanir sem heyra undir Alþingi.
    Sú umræða sem hefur farið fram á undanförnum klukkutímum hefur um margt verið athygli verð þó hún hafi ekki bætt mörgu nýju við þær upplýsingar sem legið hafa fyrir. Að mínu mati eru þó nokkur atriði sem ástæða er til að leggja áherslu á eftir alla þessa umræðu. Það er alveg ljóst að í þessari umræðu hefur því ekki verið haldið fram að það hafi verið rangt mat að Haraldur Haraldsson hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett voru og því hefur ekki verið haldið fram að borið hafi að selja honum fyrirtækið. Þetta er grundvallaratriði og er meginniðurstaða sem við komumst að við meðferð málsins og mér sýnist að ekki sé mikill ágreiningur um í þessari umræðu.
    Í annan stað er alveg ljóst að þrátt fyrir gagnrýni Ríkisendurskoðunar á einstaka þætti í meðferð málsins þá hefur hvorki Ríkisendurskoðun né hv. þm. komist að þeirri niðurstöðu í umræðunni að aðilum hafi verið mismunað í meðferð málsins ef undan er skilin sú ívilnun sem Haraldur Haraldsson fékk til þess að gera grein fyrir því hvort hann gæti uppfyllt skilyrðin og ég hef áður viðurkennt að var ívilnun honum til handa og ekki fyllilega í samræmi við settar leikreglur. Ekkert annað hefur komið fram í þessari umræðu og það staðfestir þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að í meðferð málsins, þó að hún telji að þar hafi komið fram vissir ágallar, var ekkert það sem mismunaði aðilum eða benti til að ráðherra hafi verið að reyna að hygla einum á kostnað annars. Þetta eru grundvallaratriði sem eftir standa í þessari umræðu.
    Rétt vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur um aðild Akureyrarbæjar þá er nauðsynlegt að minna á að Akureyrarbær hafði alla sömu möguleika og aðrir aðilar til að undirbúa tilboð í fyrirtækið og ekki við ráðuneytið að sakast þó þeir hafi seinna en aðrir farið að huga að því máli. Varðandi beiðni þeirra um frest þá er það svo, eins og hér hefur áður komið fram, að hún kom eftir að tilboðsfresturinn rann út. Það er alveg ljóst að komi fram beiðni um að framlengja frest áður en hann rennur út þá er hægt að taka það til skoðunar. En þegar frestur er útrunninn er ekki hægt að framlengja hann og það er kjarni þessa máls. Fyrir þá sök var ekki unnt að taka tillit til þessarar óskar frá Akureyrarbæ vegna þess að hún kom fram eftir að tilboðsfresturinn rann út og það er ekki hægt að framlengja frest sem er útrunninn. Að öðru leyti get ég alveg tekið undir það, eins og reyndar söluhópurinn og verðbréfafyrirtækið höfðu komist að niðurstöðu um, að Akureyrarbær uppfyllti skilyrði um þann fjárhagslega styrk sem til þyrfti til að geta tekið þátt í þessum kaupum. En ég hygg að það sé alveg rétt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. dró hér inn í umræðurnar að aðaláhugi Akureyrarbæjar í þessu efni lá í því að koma Krossanesverksmiðjunni inn í Síldarverksmiðjurnar en rekstur þeirrar verksmiðju hefur verið mjög erfiður og mikill baggi á Akureyrarbæ eins og hv. þm. er kunnugt um.
    Það hafa eðlilega orðið talsvert miklar umræður um söluverðið. Það er eitt aðalatriði þessa máls og því eðlilegt að menn hafi fjallað ítarlega um það atriði. Aðeins vegna þeirra reikniæfinga sem hér hafa verið settar fram um að draga eigi 400 millj., sem ríkissjóður hafði áður yfirtekið af skuldum fyrirtækisins, frá kaupverðinu þá mætti með sömu röksemdum halda því fram að bæta ætti við kaupverðið þeim hluta skuldanna sem nýir eigendur þurfa að greiða niður um 1.300 millj. kr. en hvort tveggja er rangt. En það er nauðsynlegt að taka það fram til að sýna að þessar reikniæfingar eiga ekki við rök að styðjast.
    Þegar horft er á söluverð eignanna skulum við hafa það í huga að hlutaféð er skráð í stofnefnahagsreikningi og nýjum efnahagsreikningi félagsins samkvæmt úrskurði Ríkisendurskoðunar á 650 millj. kr. Í stofnefnahagsreikningi staðfestum af Ríkisendurskoðun er hlutaféð skráð á 650 millj. kr. Í annan stað skulum við hafa það í huga að samkvæmt þeim almennu viðmiðunum sem hafa verið í gildi á sölu hlutabréfa

kemur í ljós að sala, miðað við innra virði eða bókhaldslegt verðmæti fyrirtækisins, var um 72% yfir meðaltali á hlutabréfamarkaði hér á sl. ári ef ekki er tekið með í reikninginn að búið var með endurmati að uppfæra verðmæti fyrirtækisins. En það er í sjálfu sér eðlilegur verðsamanburður vegna þess að önnur fyrirtæki eru ekki með uppskrifaðar eignir í sínum reikningi. Það er því eðlilegur samanburður. Sé hins vegar þessi samanburður ekki notaður og hlutfallið miðað við nýútgefinn reikning með uppskrifuðum eignum þá er verið að selja þessi bréf á svipuðu verði og hlutabréf í Íslandsbanka, Flugleiðum og Hampiðjunni voru seld á á sl. ári. Þessi vísbending gefur mjög glögga mynd af því að það var ekki verið að selja fyrirtækið á allt of lágu verði. Glögga mynd af því.
    Við skulum svo í þriðja lagi hafa það í huga að verðforsendurnar gera ráð fyrir því að snúa meðaltalstapi sl. tíu ára úr 90 millj. kr. yfir í 60 millj. kr. hagnað á næstu árum. Þá er hagnaður síðasta árs talinn með fortíðinni og þá er 350 millj. gróðinn sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi hér líka talinn með fortíðinni. En við væntum þess að næsta vertíð og jafnvel sú sem þar kemur á eftir verði góð en reiknum með því að loðnan verði duttlungafullur stofn á næstu tíu árum eins og hún hefur verið. Ég hef áður lýst eftir því: Getur nokkur fært önnur líffræðileg rök fram í því efni? Með öðrum orðum þarf umsnúning í rekstri upp á 150 millj. kr. á ári að meðaltali til að þessar verðforsendur standist.
    Þegar á öll þessi atriði er litið er alveg ljóst að mínu mati að við höfum fengið sanngjarnt verð fyrir fyrirtækið. Enda kemur það hvergi fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að fyrirtækið hafi verið selt við of lágu verði. ( Gripið fram í: Ha?) Það kemur hvergi fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að fyrirtækið hafi verið selt við óeðlilega lágu verði. Það kemur að sjálfsögðu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að hér getur verið um mat að ræða sem erfitt er að kveða upp úr um enda hafa fjölmargir þingmenn dregið það fram í umræðunni, sem er á að vera á almennu vitorði, að hér eru engin nákvæmnivísindi og ekki hægt að kveða upp úr um það. Það gerði hv. 6. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Norðurl. e., sem bætti því við að verðið væri ekki aðalatriði. Ég er ekki sammála honum í því. Ég held að verðið skipti gífurlega miklu máli í þessari umræðu allri. En aðalatriðið eru þó þær staðreyndir sem fyrir liggja í þessu efni varðandi mat á verðinu. Og fyrir því hafa ekki verið færð nein gild rök að fyrirtækið hafi verið selt við of lágu verði.
    Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að hún gerir ekki athugasemdir við reikniaðferðir og verðbil eða verðmætamatið sem Verðbréfamarkaður Íslandsbanka gerir. Hér er fjöldi álitaefna og auðvelt eftir á að segja að verðið hefði átt að vera í efri mörkunum en ekki neðri mörkunum. Það er auðveldasti hlutur í heimi og allir gera sér grein fyrir því. En eins og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar þá er það á endanum markaðurinn sem ræður því hvað er eðlilegt verð. Og sú aðferð við að leita til markaðarins sem söluhópurinn lagði til er fullkomlega eðlileg, ein af fjölmörgum aðferðum sem viðurkenndar eru til að leita eftir viðbrögðum markaðarins.
    Ég held því, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu þá standi það eftir að fyrirtækið hefur verið selt við sanngjörnu verði. Það er í höndum traustra kaupenda, það er mjög dreifð eignaraðild að fyrirtækinu og þar koma að almannasamtök eins og lífeyrissjóðirnir í landinu, eignarhaldsfélag Alþýðubankans, lífeyrissjóðir, heimamenn og skipstjórar og útgerðarmenn eiga um 60% af hlutabréfunum. Það er alveg nýtt fyrir mér þegar talsmenn Alþb. gera svo lítið úr lífeyrissjóðunum í landinu að halda því fram að þar séu einhverjar fámennar klíkur á ferðinni en að baki þeim standi ekki alþýða manna sem borgar í lífeyrissjóðina. Það er alveg nýtt og ég hef reyndar aldrei heyrt það áður frá talsmönnum Alþb. að það beri að líta á þann veg á lífeyrissjóðina að þar fari einungis fámennar valdaklíkur en að baki þeim standi ekki hinn breiði fjöldi vinnandi fólks í landinu.
    Herra forseti. Ég ítreka þess vegna þá skoðun mína að fyrirtækið hafi verið selt við sanngjörnu verði til fjölmargra eignaraðila þannig að áform um dreifða eignaraðild hafi ræst og að við höfum tryggt eðlilegt viðskiptaumhverfi verksmiðjanna og sátt við heimamenn og starfsmenn. Það er meginatriði í þessu efni og ekkert óeðlilegt við það nema síður sé að ríkisstjórn og Alþingi taki eðlilegt tillit til mikilvægra atvinnuhagsmuna í þeim byggðarlögum þar sem verksmiðjur af þessu tagi eru. Því ber ég ekki á móti heldur ítreka hér að það var horft til þess að reksturinn yrði áfram í öruggum höndum og það væri sátt um hann í byggðarlögunum þar sem verksmiðjurnar eru og við starfsmenn verksmiðjanna.