Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:41:17 (7061)


[01:41]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til 2. umr. hefur legið fyrir tveimur þingum áður. Nú hefur verið gerð mikil atrenna að þessu máli af umhvn. þingsins. Það hafa verið þó nokkrar væringar uppi í kringum málið á seinni stigum þess, eins og kom fram þegar það var rætt sl. föstudag. Þá var tekist á en síðan hafa orðið þó nokkur tíðindi í málinu. Hæstv. umhvrh. hefur beitt sér fyrir því að mjög umdeild brtt. var dregin til baka eins og lýst hefur verið úr forsetastóli. Formaður umhvn. hefur beitt sér fyrir breytingum á tillögum sem nefndin hafði boðað og reyndar kynnt svo að það er mitt mat að þetta mál sé komið á þann rekspöl að það sé skynsamlegt að þoka því í gegnum 2. umr. Menn geta þá gaumgæft málið að henni lokinni hvort það sé enn þörf einhverra lagfæringa á þessu ágæta plaggi, en ég býst nú við að fáir fái allar sínar óskir, virðulegur forseti, uppfylltar í sambandi við það, svo flókið og margþætt sem málið er. Auðvitað er sá kostur eftir að láta málið liggja til fjórða þingsins og taka þá til við það. Það er kannski það sem menn eru að sækjast eftir. Mér finnst það ekki skynsamlegt, frekar að reyna að gera breytingar að fenginni einhverri reynslu af frv.
    Virðulegi forseti. Ég skil eiginlega ekki þá ungu menn sem hafa komið einn af öðrum upp í ræðustólinn og beðist undan að nota þessa ágætu nótt til þess að ræða þetta mál svolítið frekar. Ég held að það sé alveg sjálfsagt að við förum nokkuð yfir málið og ræðum það. Ég er held ég fyrstur á mælendaskrá í því máli sem mér sýnist að sé á dagskrá í fyrramálið og ég var satt að segja að vona að ég slyppi við að fara heim og gæti tekið til máls kl. hálfellefu um stjórn fiskveiða, en ef ég man rétt þá er ég þar á mælendaskrá. ( ÓÞÞ: Er ætlunin að þingmaðurinn tali þangað til?)