Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:50:20 (7065)


[01:50]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki gera frekari athugasemdir við fundarhaldið í nótt fyrir utan þá sem nú verður flutt.
    Ég var enga afstöðu að taka til þessa þingmáls þegar ég kom upp en bar fram einfalda og saklausa fyrirspurn, að ég taldi, um það hvað forseti ætlaðist fyrir um fundarhaldið. Það hafði alls ekki komið fram og hefur ekki komið fram, enda hef ég ekki talað í málinu enn þá, hver mín afstaða er til þess.
    Síðan er kynnt fyrir okkur um miðja nótt samkomulag sem orðið hafi meðal nefndarmanna í umhvn. í máli sem nýlega hefur verið til umræðu á grundvelli nefndarálits og breytingartillagna þar sem hin hv. þingnefnd klofnar í nánast allar frumeindir sínar. Hver einasti nefndarmaður skrifar undir með fyrirvara og fluttar eru misvísandi breytingartillögur út og suður. Þetta eru allt saman nýjar upplýsingar fyrir okkur óbreytta þingmenn. Ég hef ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera leiddur inn í þessar vígðu herbúðir og fá upplýsingar um þetta samkomulag fyrir utan eitt óformlegt símtal um miðjan dag í gær sem formaður nefndarinnar átti við mig og var þá að reifa hugmyndir um að e.t.v. væri unnt að ná samkomulagi í þessa veru. Þetta mál hefur ekki verið tekið fyrir í mínum þingflokki og var þó fundur þar í dag þannig að ég er að fá þessar fréttir í fyrsta sinn.
    Jafnvel þó svo mönnum kunni að lítast vel á þetta samkomulag, sem ég dreg reyndar ekki í efa því að við berum auðvitað djúpa lotningu fyrir hv. nefnd og vinnu hennar að þessu máli sem ku hafa á mörgum lærðum fundum rætt þetta í vetur meira og minna frá jólum, þá kunna menn að vilja láta í ljós einhverjar almennar athugasemdir og lýsa viðhorfum sínum til málsins, með því eða móti því og gera fyrirvara um einstaka þætti þess. Það er algerlega burt séð frá þessum tíðindum úr umhvn.
    Ég vil svo að öðru leyti segja það og sérstaklega út af orðum hv. 4. þm. Austurl. að ég tel mig ekki hafa verið öðrum mönnum sérhlífnari varðandi það að stunda fundi og hef yfirleitt ekki verið að kvarta undan fundarhaldinu og reynt að taka sómasamlega þátt í störfum þingsins hér. Hinu kann ég heldur illa að einfaldar athugasemdir og spurningar til forseta séu lagðar upp sem einhver sérhlífni eða aumingjadómur gagnvart því að sinna sínum þingskyldum og sérstaklega af hálfu ungra manna, eins og hér var sagt. Ég kann því satt best að segja ekkert sérstaklega vel.
    Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð en held að menn ættu að minnast þess að menn eiga ekki

að taka afstöðu til réttmætra og eðlilegra umræðna um tilhögun þinghaldsins út frá því og því einu hvort það mál sem nákvæmlega þá og þá er á dagskrá er þeim þóknanlegra eða ekki þóknanlegra en önnur. Það er tvennt aðskilið. Annars vegar aðstaða manna til viðkomandi mála og hins vegar það hvernig við högum starfinu og hvaða virðingu við berum fyrir í sjálfu sér eðlilegum óskum um hvíldartíma og skipulagningu þingstarfanna o.s.frv. sem hefð hefur verið fyrir að menn fengju að flytja hér sæmilega óáreittir.