Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:53:28 (7066)


[01:53]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég er síst að mæla gegn því að gert sé samkomulag um þinghaldið til loka og er svo sem ekki verið endilega að mæla með því að menn vinni langt fram á nætur. Ég hef hins vegar lagt mikið upp úr því að við gætum rætt um það mál sem var búið að boða að yrði tekið fyrir á dagskránni og hef beitt mér mjög fyrir því að það yrði gert. Var ég að vonast til þess að menn gætu sæst á það að hér hæfust umræður og hægt væri að ljúka 2. umr. um málið. Ég ætlast alls ekki til þess að fólk talaði ekki í málinu og segði ekki álit sitt á því.
    Ég vil hins vegar taka það fram vegna þess sem hér kom fram, ég man reyndar ekki lengur í máli hverra, að þær breytingartillögur sem var talað um að ég mundi mæla fyrir eru breytingartillögur sem ég flyt, að vísu eftir samráð í nefndinni en það voru ekki allir nefndarmenn sem stóðu að þeim breytingartillögum, enda var nefndin búin að afgreiða málið. Eins og við höfum séð á breytingartillögunum þá er það ekki nefndin sem flytur þær sem heild.
    Hins vegar vil ég taka það fram að nú hefur verið fallið frá ákveðnum breytingartillögum sem gerðu t.d. það að verkum að ákveðnir fyrirvarar voru í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar. Mér finnst hins vegar óeðlilegt að vera að lýsa því akkúrat hér og nú undir þessum dagskrárlið. Það er eðlilegra að lýsa því við umræðu um málið. Ég vildi bara taka það fram að ég hefði lagt mikið upp úr því að við hefðum getað rætt þetta mál hér og nú. Ég ætla hins vegar ekki að tíunda það nákvæmlega af hverju mér þykir endilega nauðsynlegt að gera það einmitt núna á þessum fundi. Það verður bara að koma í ljós ef menn vilja alls ekki ræða málin en ég vildi lýsa því að ég legg sjálf mikið upp úr því að við getum tekið þetta mál fyrir og rætt þær breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram og hafði ég vonast til þess að það mundi liðka til fyrir málinu þó að ég geri mér alveg grein fyrir því að það verður seint hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu þannig að allir geti fengið sitt fram og vel við unað.