Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 02:00:54 (7069)


[02:00]
     Árni M. Mathiesen (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni að það var ekki samkomulag um þær breytingartillögur sem formaðurinn flutti, enda er málið ekki til meðferðar hjá nefndinni. Hins vegar varð breið samstaða um nefndarálitið og þær breytingartillögur sem meiri hlutinn flutti sameiginlega.
    Það er rétt sem fram hefur komið að það var skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara en sá fyrirvari var við tvö atriði í frv., annars vegar það atriði er varðaði brtt. við embætti veiðistjóra og hins vegar við 16. gr. sem varðaði selveiðarnar. Núna hefur annars vegar verið dregin til baka brtt. um veiðistjórann og hins vegar hefur komið fram tillaga frá umhvrh. um það að 16. gr. og það sem að henni lýtur annars staðar í frv. væri tekið út úr frv.
    Þess vegna hryggir það mig mjög að finna fyrir þeirri andstöðu sem er gegn því að taka málið á dagskrá hjá framsóknarmönnum þar sem þeirra fulltrúi skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara um 16. gr. en síðan hefur komið fram tillaga um það að hún verði tekin út úr frv. Ég er sannfærður um að það hryggir örugglega líka hv. þm. Jón Helgason að þetta skuli mæta þessari andstöðu hjá hans flokksmönnum.