Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 03:04:29 (7081)


[03:04]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Herra forseti. Eins og fram kemur í brtt. nefndarinnar var lagt til að allar fuglategundir yrðu friðaðar til 1. sept. vegna þess sem ég er að tala um. Það gilti reyndar það sama með svartfuglinn og þeir fuglafræðingar sem við höfðum samband við, nú getur vel verið að það sé deilumál en ég hef ekki orðið vör við það, bentu á að allir þessir fuglar geti verið illa fleygir eða ófleygir á þessum tíma. Það gildir nákvæmlega það sama með svartfuglinn. Hann fer að undirbúa varp upp úr mánaðamótum apríl/maí víðast hvar og hann er ekki farinn að verpa þá. Ef maður vildi vera á öryggismörkunum þá væri eðlilegast að fara alveg til 30. apríl. Ég vil benda á að t.d. á Norðurlöndum er ekki leyfð nein vorveiði á svartfugli, ekki frá áramótum.
    Sjálfsagt hefði því verið öruggast að friða hann frá þeim tíma. En þegar verið er að reyna að sætta ýmis sjónarmið þá teygir maður sig stundum eins langt og mögulegt er til þess að reyna að ganga ekki líffræðilega á stofnana, það má náttúrlega aldrei gerast, og eins líka siðferðilega. T.d. er alltaf bannað að veiða fugla í sárum. Það er ekki vegna þess að maður sé að velta því fyrir sér hvort stofnanir séu í hættu heldur er það siðferðileg spurning. Það verður líka að taka tillit til í þessu máli og ég bendi á að grundvallaratriðið í þessu frv. er að öll dýrin eru friðuð með ákveðnum undantekningum, þ.e. minkar, rottur og mýs. Það er grunnurinn. Síðan er miðað við að aflétta friðun og sú ákvörðun þarf að byggjast á vísindalegum rökum.