Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 03:21:41 (7088)


[03:21]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það gleður mig stórkostlega að fá loks tækifæri til að flytja þá ræðu sem ég hef lengi beðið eftir því ég bað um orðið einhvern tímann seint í síðustu viku og nú er nokkuð liðið á þessa nótt og hefur talsvert dregist að við kæmust til þess að ræða þetta gagnmerka mál. En ég ætla ekki að hafa um þetta ýkja mörg orð heldur koma eingöngu á framfæri athugasemdum mínum eða hugleiðingum í sambandi við þetta mál sem ég hafði hugsað mér að flytja og mun gera og eru í sjálfu sér að hluta til óskyldar þeim umræðum sem hér hafa orðið um breytingar og ekki breytingar fram og til baka á þessu frv. Satt best að segja verð ég að segja fyrir mitt leyti og mína hönd og vandamanna að mér finnst afgreiðslan á þessu vera svona nokkuð ruglingsleg. Kemur það m.a. fram í því að hver einasti nefndarmaður skrifar undir málið með fyrirvara og brtt. eru svo fluttar út og suður, hafa verið boðaðar fram og til baka, þar á meðal af hæstv. ráðherra og síðan dregnar til baka og fleira þar fram eftir götunum. Þannig að það er hugsanlegt, kannski leyfi ég mér að trúa að einn og einn maður sé pínulítið ruglaður í því hvernig þetta nákvæmlega eigi að afgreiðast og berast upp.
    Það sem ég í fyrsta lagi vildi gera að umtalsefni, hæstv. forseti, er reyndar grundvallaratriði þessa máls sem hér hefur nokkuð verið til umræðu og kemur auðvitað fram í mismunandi sjónarmiðum nefndarmanna og það er spurningin um framsetningu friðunar- eða verndunarreglunnar gagnvart aftur nýtingarsjónarmiðum á þessum tegundum. Nú má segja að það sé kannski í aðalatriðum akademísk spurning hvernig þetta er fram sett, a.m.k. tæknilega séð. Það er auðvitað smekksatriði næstum að segja hvort menn velja sér fyrst þá leið að banna hlutina en veita síðan undanþágu frá því banni eða öfugt, að leyfa hlutina en hafa inni heimildir til að banna þá og er svo sem alþekkt að menn þræti um þetta.
    Ég vil gjarnan líta á þetta út frá bæði sögulegum forsendum og réttarfarslegum að nokkru leyti og líka pólitískum og þá meina ég aðallega pólitískum út frá þeim nýtingarforsendum og þeirri nýtingarpólitík sem Ísland byggir sína tilveru á. Sem sagt, til að gera langt mál stutt, hæstv. forseti, þá leita á mig vissar efasemdir um það að sú almenna framsetning sem fram kemur fyrst og fremst í 6. gr. að villt dýr önnur en þrjár tegundir kvikinda sem þar eru talin upp, mýs, rottur og minkar, skuli friðuð nema annað sé tekið fram í lögum þessum eða reglugerðum byggðum á þeim. Þetta er grundvallarregla málsins eins og hún er sett fram hér og ég segi að það leita á mig efasemdir um að þessi framsetning eins og hún er fram borin ein og sér sé skynsamleg. Ég hefði gert mikinn greinarmun á því ef í sömu málsgrein eða sömu lagagrein verði jafnframt komið það sjónarmið að þrátt fyrir þessa almennu reglu eða útgangsreglu skyldu gilda og standa þau sjónarmið að rétt væri að stefna að nýtingu þeirra stofna sem nýtanlegir eru með sjálfbærum hætti ef það megi verða til aukinnar verðmætasköpunar og velmegunar landsmanna og í þágu matvælaframleiðslu eða annarra slíkra hluta. Þannig að þetta væri þá a.m.k. tengt saman með þeim hætti. Ég vil segja það að ég er að mörgu leyti nálægt þeim sjónarmiðum sem fram koma í nál. á þskj. 1054 hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich hvað þetta snertir. Þar gætir sennilega uppeldis ræðumanns í einhverjum mæli því ég er nú einu sinni fæddur nánast og uppalinn við það að vera síveiðandi og skjótandi svo lengi sem ég man eiginlega eftir mér í mínum uppvexti, tilheyrir enn því umhverfi sem ég er upp úr sprottinn. Það er náttúrlega erfitt að breyta þeim hugsunarhætti og innræti sem manni er þannig kennt, því lengi býr að fyrstu gerð, eins og þar segir.
    Þetta er þó að mínu mati nokkuð eftir því, þessi framsetning, hvað við á í hverju tilviki. Það er til að mynda þannig að ég held að þessi regla, framsett eins og frv. í byrjun gerði ráð fyrir, gagnvart sjávarspendýrunum sem þarna heyra undir, selir og rostungar, hefði getað verið varhugaverðari að mörgu leyti en gagnvart villtum dýrum að öðru leyti og þá er ég fyrst og fremst að hugsa til þess að það er stutt á milli þessara sjávarspendýra og hvalanna. Við erum í tiltekinni stöðu með þau mál og eigum undir högg

að sækja í samfélagi þjóðanna vegna okkar afstöðu til þess að það eigi að nýta þann stofn eins og aðra. Og þá er spurningin auðvitað: Hefur það áhrif á vígstöðu okkar og viðhorf almennt hvor reglan er lögð til grundvallar, nýtingarreglan eða friðunarreglan? Nú eru þær ekki andstæður í sjálfu sér eins og málin eru fram borin og ég er ekki að gera mönnum það upp að í þessum framsetningarmáta endurspeglist endilega einhver vilji til þess að hafa beint áhrif á stefnu okkar á þessu sviði. En menn hljóta auðvitað að fara í gegnum það þegar þetta er rætt hvor framsetningin sé þá heppilegri.
    Sömuleiðis er það þannig, hæstv. forseti, að ég á satt best að segja í nokkrum erfiðleikum með þá hugsun að friða íslenska refinn, að ganga út frá því að hann skuli vera friðaður en eyðing hans sem ég er sannfærður um að muni hér eftir sem hingað til þurfa að koma til til að halda stofninum í jafnvægi skuli vera undanþæg regla. Og þá spyr ég menn náttúrlega að því hvort það sé ekki nokkuð mótsagnarkennt annars vegar að byggja á þeirri grundvallarreglu í löggjöfinni að tegundin sé friðuð en hins vegar veita til þess fé á fjárlögum hverju sinni að kosta eyðingu hennar beinlínis vegna þess að það sé nauðsynlegt að leggja til þess opinbera fjármuni frá ríki eða sveitarfélögum að halda niðri viðkomandi tegundum. Menn kunna að segja að sé þrætubókarlist og tittlingaskítur að vera að eltast við þetta hér en eins og ég lít á málið þá er það spurning hvort það er að öllu leyti rökrétt framsetning í löggjöf og stjórnsýslu að hafa grundvallarreglu í löggjöf að friðun en leggja síðan fjármuni í eyðingu á viðkomandi tegund í verulegum mæli. Þar gegnir t.d. öðru um minkinn sem á ekki að vera friðaður. Sama má víst segja um selinn því ég held ég fari rétt með það að enn séu lagðir fjármunir í það af hinni frægu hringormanefnd að hvetja til fækkunar og eyðingar á þeirri tegund.
    Þá fáein orð um önnur atriði þessa máls. Ég vil spyrja gagnvart ákvæðum 9. gr. þar sem er gífurleg upptalning á öllum þeim aðferðum sem ólöglegar skuli teljast við veiðiskap, svo sem að bana dýrum með grjótkasti og hvað eina. Þar kemur í lið 14 að hálfsjálfvirkum eða sjálfvirkum skotvopnum og þar vil ég spyrja í samhengi við síðustu málsgrein greinarinnar sem gengur út á það að umhvrh. geti heimilað notkun ofangreindra veiðiaðferða, þ.e. þeir sem búið er að telja upp í 17 töluliðum ef ég skil rétt, í vísindaskyni eða ef villt dýr valda umtalsverðu tjóni og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta. Er það ætlunin að þetta ákvæði til að mynda nái yfir grenjavinnslu? Er þá meiningin til að mynda að áfram sé hægt að leyfa grenjaskyttum notkun á sjálfvirkum haglabyssum eða sjálfvirkum skotvopnum við veiðiskap? Ef svo er ekki þá bið ég um rökin fyrir því að falla frá því. Nú vita menn væntanlega sem til þekkja að velflestar grenjaskyttur landsins hafa fjárfest í eða eiga svona vopn og hafa haft til þess leyfi sérstaklega og undanþágur á undanförnum árum að hafa þau með höndum til þess og til þess eingöngu að nota þær við grenjavinnslu. Er sem sagt ætlunin að þessu verði breytt? Koma þá bætur fyrir af því að þessir menn hafa haft það að starfa að sinna þessum verkefnum og verið launaðir til þess af ríki og/eða sveitarfélögum og þessi vopnabúnaður hefur tilheyrt þeirra starfi. Sömuleiðis kunna ýmsir að telja þetta smávægilegt atriði en mér finnst rétt að málin séu rædd eins og þau liggja fyrir og staðreynd er að þessi útbúnaður hefur verið hluti af tækjabúnaði manna við þessa iðju á undanförnum árum.
    Ég vil gjarnan fá á hreint hvernig þetta liggur og vona að þó síðar verði komi svör við þessu áður en málið verður afgreitt.
    Eins er það örstutt, hæstv. forseti, um ákvæði 11. gr. um veiðikortin. Ég vil spyrja að því hvort aldrei hafi komið til álita að gera greinarmun annars vegar á sportveiði og slíkum veiðiskap og hins vegar hefðbundnum nytjum, t.d. bænda á eigin landi við veiðiskap eða manna við sjávarsíðuna gagnvart t.d. svartfuglaveiðum. Telja menn það nauðsynlegt samræmisins vegna að þetta gangi yfir allan veiðiskap og allar nytjar hversu óskyldar sem þær eru, allt frá hreinni sportveiðimennsku, t.d. rjúpnaveiðum á þeim takmarkaða tíma og yfir í, segjum þá, svartfuglaveiði manna við sjávarsíðuna? Mér finnst það svo sem spurning hvort þar hefði ekki mátt að einhverju leyti aðgreina mismunandi tegundir veiði.
    Þá vildi ég, hæstv. forseti, aðeins nefna fuglafriðunarákvæðin eða 18. gr. Þar er gert ráð fyrir því að hæstv. umhvrh. geti í reglugerð aflétt friðun sem er grundvallarreglan þannig að hún gildir meira að segja líka um þær tegundir sem réttdræpar hafa talist á Íslandi allt árið, svo lengi sem elstu menn muna held ég, eins og hrafn og svartbakur, en friðun skal það samt heita og síðan heimild til ráðherra til að aflétta þessu allt árið. Svo kemur að gæsinni og þar hefur orðið sú breyting, ef ég hef náð að nema rétt, að nú er lagt til á nýjan leik í 2. tölul. gagnvart þeim fuglum sem þar eru taldir upp að tímabilið skuli vera frá 20. ágúst til 31. mars. Þá kemur að því að ég vil í fyrsta lagi fagna því að veiðitíminn er lengdur í annan endann sem sagt. Áður gilti þarna dagsetningin 15. mars um a.m.k. nokkrar af þessum tegundum en þetta er fært aftur til 31. mars.
    Ég hefði að mörgu leyti talið rétt að skipta þessu upp því þarna er blandað saman tegundum sem að mínu mati eiga orðið fátt sameiginlegt eins og nokkrum tegundum anda sem réttilega kom fram áðan hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að í sjálfu sér er álitamál hvort það eigi að vera að leggja undir jafnmikla veiði og hér er opnað fyrir og hins vegar til að mynda gæsastofnum sem í raun og veru hefur fjölgað ískyggilega undanfarin ár og ef eitthvað væri væri ástæða til að hvetja til aukinnar veiði á. Það á bæði við um grágæs og heiðargæs af því að hv. þm. nefndi það. Ég þekki það vel af slóðum sem mér eru kunnar að heiðargæsin hefur verið að færa út kvíarnar í stórum stíl og ýta meira að segja grágæsinni af hefðbundnum varpslóðum á hálendi Norðausturlands og það er enginn vafi á því að báðar tegundir hafa verið í sókn.
    Ég er þeirrar skoðunar og vil láta það koma hér fram að það hefði verið gagnvart gæsinni fullkomlega réttlætanlegt að lengja vorveiðitímann, jafnvel fram til 10. eða 15. aprílmánaðar. Auðvitað var þessi regla um 15. mars eins og hún hefur staðið í lögum hreint út sagt hláleg því það heyrði til undantekninga að gæsir, aðrar en þær sem hafa hér vetursetu, sem eru nokkur hundruð stykki aðallega við Tjörnina í Reykjavík, sæjust á Íslandi fyrir þennan tíma. Þannig að það var hreint fræðilegt atriði að hafa þennan tíma til 15. mars. Sé hann hins vegar kominn um mánaðamót eða ég tala nú ekki um ef hann væri færður aftur til 10. apríl þá væri ákveðin vorveiði orðin möguleg á gæsinni og það mundi líka falla að því að gæsin er hinn mesti vágestur í túnum víða og fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati að leyfa veiði á henni. Reyndar hefur verið heimilt, ef ég man rétt, að veita undanþágur ef sérstaklega hefur verið um það sótt og það blessað af sveitarstjórnum en því miður held ég að allt of fá dæmi hafi verið um það að slíkt hafi verið notað og fremur borið við jafnvel að eitthvað hafi verið um veiði án þess að slíkrar undanþágur hafi verið aflað.
    Og af því að ég var að ganga út frá nýtingarreglum og nýtingarhugsun í sambandi við minn málflutning þá vil ég láta það koma fram sem ég hef líka hugleitt hvort þessi alfriðun á álftinni sé ekki tímaskekkja. Þeirri tegund hefur líka fjölgað mikið og hún er býsna aðgangshörð að landinu þar sem hún fer um í miklum flokkum. Það á meðal annars við um nýgræðing á vorin þar sem hún gengur sérstaklega hart að landinu. Ég er þeirrar skoðunar að sú tegund eigi nákvæmlega með sama hætti að falla undir eðlileg nýtingarsjónarmið og aðrar, hef enga tilfinningasemi gagnvart því þó einn og einn maður hafi ort fallega um svanasöng á heiðum þá þekkist líka hugtakið ,,álftagarg`` á mínum heimaslóðum og þykir ekki alltaf jafnfallegt. Ég hefði talið að það kæmi til greina að með einhverjum hætti væri sömuleiðis hægt að opna fyrir eðlilega nýtingu á þeirri tegund, e.t.v. á öðrum og afmarkaðri tíma en hér er fjallað um.
    Þá vil ég líka koma að síðasta hluta frv., hæstv. forseti, þar eru tvö ákvæði sem ég staldra við. Það er í 1. tölulið 22. gr. að frv. gerði ráð fyrir að fella niður ákveðin ákvæði Jónsbókar sem fjalla um seli, rostunga og hvítabirni. Ef ég man rétt tel ég mig þó hafa fundið að nefndin leggi til að frá þessu verði horfið og ég fagna því og þakka það ef það er rétt skilið. Það er mér alveg sérlegur þyrnir í augum þegar menn eru að ólmast við það hér að fella úr lögum að ástæðulausu jafngöfugan og merkan rétt eins og þann sem enn er að finna í íslenska lagasafninu og er að verða elsti rétturinn í lögum í landinu sem eru ýmsir kaflar Jónsbókar fyrir utan tilteknar kristnitilskipanir sem eru enn eldri, þá eru þarna á ferðinni landlegubálkur, rekabálkur og fleiri slík ákvæði Jónsbókar að verða þau elstu sem í lögum finnast. Það á að sjálfsögðu ekki að vera að henda slíku út og allra síst ef ákvæði þeirra standast í raun og veru tímans tönn eins og þau gera furðulega vel þegar betur er að gáð.
    Sömuleiðis ætlaði ég að spyrja hvort það væri hugsun manna að fella úr gildi XII. kafla laganna um lax- og silungsveiði sem er um ófriðun sels. Nú er að vísu lagt til að ákvæðið um sel hverfi út úr þessu frv. og þá væntanlega einnig þetta, þessi 10. töluliður. En hvað er fjallað um í þessum ákvæðum laganna um lax- og silungsveiði, um ófriðun sels? Jú, það er m.a. 83. gr. þeirra laga í XII. kafla, en þar segir undir fyrirsögninni um ófriðun sels sem skilst vonandi enn þá: ,,Rétt er að skjóta eða styggja sel í veiðivatni og í ósi þess eða ósasvæði enda sé eigi öðruvísi mælt í lögum.``
    Þetta er nokkuð fornlegt málfar en skilst vonandi vel og kannski nokkuð til vitnis um annan hugsunarhátt en þann sem gengur nú í gegnum lagasetningu þegar svona er tekið til orða að rétt sé að stugga sel úr ósum veiðivatna enda gera þeir þar hinn mesta óskunda. Það heyrði nánast undir kvöð á landeigendum sem áttu land að ósum mikilla veiðivatna á mínum heimaslóðum að sjá um það hlutverk að stugga sel úr ósi og var talið nánast falla undir kvaðir svipað og lögferjur og annað því um líkt. En þetta stendur sem sagt til bóta og ákvæði um ófriðun sels verða þá áfram í gildi ef þetta verður niðurstaðan að selahluti málsins falli úr gildi.
    Ég ætla tímans vegna, hæstv. forseti, ekki að blanda mér inn í þær spaklegu umræður sem nokkuð hafa orðið um það hvar skuli vista selamálin. Á því eru uppi ýmsar kenningar og menn hafa á því nokkurn áhuga, m.a. þeirri sögu sem komist hefur á loft að í ríkisstjórninni hafi verið gert magnað samkomulag um það hvernig með það mál skuli fara og hefur gengið út á það að útselur skuli heyra undir sjútvrh., landselur undir landbrh. og blöðruselur vera í umhvrn. og þótti Akureyringum a.m.k. nokkuð skondið og snjallt hvernig þessu máli hefði verið lent í ríkisstjórninni. En nú er sem sagt meiningin að setja þetta mál í gerð í sumar og hvort sem þetta verður niðurstaðan eða ekki þá held ég að það sé þrátt fyrir allt skynsamlega ráðið. Sönnu nær er þó að þetta mál hlýtur auðvitað að vera samstarfsverkefni og ég hefði talið ekki óeðlilegt að vistunin sem slík væri hjá umhvrh. en eðlilegt að um þau mál væri eftir atvikum haft samstarf við landbrh. þar sem svona hefðbundnar nytjar selabænda eiga í hlut á sínum eða fyrir sínum bújörðum en eftir atvikum einnig við sjútvrh. ef málið snýst um eitthvert jafnvægi í lífríki sjávarins.
    Og þá er nú aðeins eitt eftir, hæstv. forseti, sem ég ætlaði að nefna og það er veiðistjóraembættið. Nú eru boðuð mikil tíðindi í því að náðst hafi samkomulag um að hætta við að leggja veiðistjóraembættið niður og ég held ég verði bara að segja að ég fagna því. Mig tekur nokkuð sárt til þess embættis og þeirrar starfsemi sem þar hefur verið. Ég átti þátt í því á sínum tíma að ná samkomulagi um að það embætti væri flutt frá fyrri slóðum og yfir í umhvrn. þegar það var stofnað og reyndar er það þannig að á þeim tíma þegar umhvrn. varð til þá kom það í minn hluta sem landbrh. og samgrh. að leggja því embætti til flestar stofnanirnar ef svo má að orði komast, þ.e. þær flestar sem fluttust yfir í umhvrn. og mynduðu þann stofn kom frá þessum tveimur ráðuneytum, landbrn. og samgrn., eins og menn geta skoðað ef þeir rifja upp

söguna. Það var hins vegar aldrei með í kaupunum að þannig yrði við veiðistjóraembættinu tekið og þannig með það farið að það yrði lagt niður innan skamms og hefði náttúrlega verið rétt að þinglýsa kvöð á afhendingarsamningnum að það skyldi rekið eða starfrækt um ókomin ár ef út í það hefði verið farið. En auðvitað er það ekki aðalatriðið eða mergurinn málsins heldur að fyrir þessari starfsemi sé séð og ég hef ekki haft þá sannfæringu að menn væru búnir að útbúa sig nógu vel til þess að fara í þessar breytingar eins og málin hafa staðið. Ég held að eftir atvikum hafi þarna verið unnið hið merkasta starf á ýmsan hátt og ástæða sé til að vanda sig gagnvart öllum breytingum á því.
    Vegna þess að umræða um flutning á þessu embætti sem nokkuð hefur komið í loftið hefur verið til umfjöllunar þá vil ég fyrir mitt leyti taka það fram að ég er stuðningsmaður þess almennt séð að leitað sé leiða til að dreifa verkefnum og hinni opinberu þjónustu úti um landið og það er ekki nokkur vafi á því að ýmis embætti og ýmsar stofnanir eða þættir í starfsemi þeirra geta og mega mjög vel flytjast til og ég held að það sé hægt að nefna dæmi um slíkt þar sem sæmilega vel hefur tekist. Þannig að ég er síður en svo að mæla gegn því að það sé skoðað að þetta embætti eins og önnur sé athugað í því sambandi. Með því er ég á hinn bóginn ekki að skrifa upp á hvernig að því hefur verið staðið af hálfu núv. hæstv. ráðherra án þess að ég ætli að fjölyrða um það mál á þessu stigi og um þetta leyti nætur frekar en hér hefur þá verið gert.
    Að síðustu þetta, hæstv. forseti. Ég dreg það ekki í efa enda væntanlega ástæðan fyrir því að hér hefur verið endurflutt æ ofan í æ frv. um þetta efni að þörf sé orðin á því að endurskoða ákvæði sem um þetta gilda og samræma þau í nýrri heildarlöggjöf og ég held að að langmestu leyti séu málin á réttri leið og ákvæðin til bóta. Ég tel einnig að þær breytingar sem hér hafa verið kynntar á málinu auðveldi afgreiðslu þess eða samkomulag um það hér en engu að síður er það þannig að ég hef haft um þetta mál tilteknar efasemdir sem ég hef gert grein fyrir og ég hef ekki endanlega gert upp hug minn um það hvort ég veiti þessu máli brautargengi með atkvæði mínu. Ég er miklu nær því nú heldur en ég var eins og það kom fyrir óbreytt og eins og það lá með hinni nokkuð svo margbrotnu afgreiðslu nefndarinnar en hef sem sagt ekki endanlega gert það upp við mig hvernig ég ráðstafa mínu atkvæði í þessu efni.