Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 11:58:58 (7099)


[11:58]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég misvirði það síður en svo við hv. þm. að draga fram þetta atriði sem hann gerði. Ég tók einmitt fram í mínu máli að það mætti benda á að það væri stílbrot miðað við langtímasjónarmið að andæfa gegn þeirri breytingu sem hér er verið að gera tillögu um. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því. En ég bendi á það að burt séð frá spurningunni um framsal að því er varðar botnfiskveiðiheimildir þá er þessi regla að því er varðar uppsjávarfiskana, loðnuna, síldina, náttúrlega mjög fjarstæðukennd í rauninni. Það er atriði sem ég kom ekki að í máli mínu og hefði gjarnan mátt fara út í því það er gildur þáttur í þessu máli hvaða áhrif þessi 15% regla hefur á síldveiðarnar og loðnuveiðarnar með allt öðrum hætti heldur en á botnfiskveiðarnar. Það gildir talsvert annað þegar menn eru að meta stjórnun svona til skamms tíma litið eftir því hvort við erum að tala um botnfiskveiðar eða uppsjávarfiskana.