Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 12:02:56 (7101)


[12:02]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Frá því að breytingar á lögum um stjórn fiskveiða voru til 1. umr. hér á Alþingi í febrúar hefur hæstv. sjútvrh. lagt fram nokkrar brtt. sem flestar eru til bóta að mínu áliti. Þær ganga þó ekki nógu langt til að málið í heild sinni sé viðunandi. Hér er verið að setja lög um það hvernig stjórn fiskveiðanna skuli háttað á næstu árum og því mikilvægt að vel takist til.
    Samhliða brtt. hæstv. sjútvrh. voru flutt tvö frv. er tengjast kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna, sem var stöðvuð með bráðabirgðalögum í vetur. Annars vegar er það frv. um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og hins vegar frv. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Samþykkt þessara frv. er nauðsynleg til að eyða þeirri tortryggni sem ríkt hefur milli þessara aðila vegna meintrar þátttöku í kvótakaupum.
    Hæstv. sjútvrh. leggur hér til nokkrar breytingar varðandi krókaleyfisbátana frá því frv. sem hann lagði fram fyrr í vetur. Nú er gert ráð fyrir að banna þessum bátum veiðar í desember og janúar, svo og

í sjö daga um páska og verslunarmannahelgi og þrjá daga aðra og fjórðu helgi hvers mánaðar. Ég tel að þessi breyting sé nokkuð til bóta frá því sem áður var gert ráð fyrir. Þetta er að vísu veruleg fjölgun banndaga frá því sem nú er en vegna þess mikla samdráttar sem orðið hefur á leyfðum afla á sl. tveimur árum þá hlýtur einhver skerðing að lenda á þessum flokki útgerðar eins og öðrum.
    Ég vil þó ítreka þá skoðun mína sem fram kom við 1. umr. að veiðum þessara báta eigi eingöngu að stjórna með banndögum og tel óþarfa að úthluta þeim sameiginlegum hámarksafla með tilheyrandi refsingum ef eitthvað veiðist umfram. Það skiptir auðvitað engu höfuðmáli hvort þessir bátar veiða eitt eða tvö þúsund tonnunum meira eða minna. Það mundi engu breyta um stofnstærð þorsksins og væri langt innan skekkjumarka fiskifræðinnar. Þessi útgerð er miklu háðari veðri og aðstæðum en öll önnur útgerð og með því að ákveða þeim 136 banndaga eins og hér er gert ráð fyrir, auk þeirra fjölmörgu banndaga sem veðurguðirnir óhjákvæmilega skapa þessum bátum þá held ég að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þeir ofveiði grunnslóðina. Verði niðurstaðan að fara þá leið sem hér er gert ráð fyrir í brtt. hæstv. sjútvrh. varðandi veiðitímabil og hámarksafla þá hlýtur að verða að breyta því ákvæði að fjöldi banndaga verði óháður ársafla þannig að ekki komi til fjölgunar banndaga á næsta ári ef farið er fram úr leyfilegum afla á einu tímabili en heildarafli ársins er undir viðmiðunarmörkum. Slíkt ákvæði finnst mér afskaplega ósanngjarnt.
    Mér finnst ástæða til að minna enn einu sinni á það að krókarnir fara betur með auðlindina en önnur veiðarfæri og um það er ekki deilt. Það er auðvitað rétt sem fram kemur í skýrslu tvíhöfða nefndar að krókaveiðar eru vistvænar og að minni hætta sé á ofveiði hjá þeim en þar sem stórtækari veiðarfæri eru notuð. Smábátarnir hafa mikilvægu hlutverki að gegna í atvinnulífi margra smærri byggðarlaga og útgerð þeirra á tvímælalaust áfram að vera gildur þáttur í útgerðarmynstri landsins. Þess vegna má ekki þrengja svo að þeim sem hafa af þessu atvinnu sína að þeir geti ekki haldið velli á meðan leyfður afli er í lágmarki.
    Það er oft hamrað á því í umræðunni að afli krókaleyfisbátanna hafi farið úr böndunum og vissulega hefur hann aukist mikið. En hver er ástæðan fyrst og fremst? Hún er sú að stjórnvöld gripu allt of seint í taumana til að stöðva stækkun þessa flota og fjölmargir þeirra báta sem fengu krókaleyfi á sínum tíma lögðu ekkert í upphaflegu hlutdeildina. Margir þessara báta voru síðan úreltir fyrir nýja og öflugri báta. Önnur ástæðan er svo hið mikla kapphlaup sem hófst innan krókakerfisins við að ávinna sér aflaheimildir. Það er því fyrst og fremst við stjórnvöld að sakast að mínu áliti ef mönnum finnst afli krókaveiðiflotans hafa vaxið of mikið í samanburði við aðra útgerð.
    Mér þykir mjög miður að ekki skuli vera gert ráð fyrir neinum lagfæringum fyrir litlu aflamarksbátana. Það hefur trúlega enginn flokkur útgerðar farið jafnilla út úr aflasamdrætti undanfarinna ára og einmitt þeir og samkvæmt þeim tölum sem birst hafa þá hefur þessi floti misst tvo þriðju af veiðiheimildum sínum á undanförnum árum. Þessir bátar eru svo til alfarið háðir veiðum á þorski og ýsu og hafa enga möguleika á að leita í aðra stofna eða á djúpslóð þegar illa árar. Fjölmargir þessara báta hafa orðið svo litlar aflaheimildir að vonlaust er að gera þá út. Jafnframt er vonlítið að selja þá vegna skorts á kvóta á verði sem nægir til að eigendur þeirra geti losnað frá þeim skuldum sem á þeim hvíla. Útgerðarmenn þessara báta eru því í raun fangar kerfisins, þeir geta hvorki hætt né haldið áfram. Margir þeirra eru við það að gefast upp og ljóst er að verði ekkert að gert þá munu fjölmargir þeirra gefast upp á að halda þessum bátum til veiða á næstu mánuðum. Þessum bátum hefur fækkað um hátt í 500 á undanförnum árum og veiðiheimildir þeirra flust nánast alfarið yfir á verksmiðjuskipaflotann sem vinnur aflann á hafi úti.
    Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að úthluta þessum bátum viðbótarkvóta sem ekki kæmi til skerðingar hjá annarri útgerð. Það var skoðun margra að óhætt væri að auka nokkuð aflaheimildir í vetur en það var ekki gert, en ég tel að með því hefði mátt leysa helsta vanda þessara báta þannig að þeir gætu skrimt þangað til afli eykst á ný. Það eru vissulega dæmi um að samdrætti í afla einstaka útgerðarflokka hafi verið mætt í kvótakerfinu og þannig fékk loðnuflotinn úthlutað þorskveiðiheimildum á árunum 1988--1990 vegna samdráttar í loðnuveiðunum. Þessar úthlutanir urðu síðan að þorskaflahlutdeild 1. jan. 1991 sem miðað við úthlutun þessa fiskveiðiárs þýðir 2.200 tonn af þorski upp úr sjó.
    Varðandi smábátana þá finnst mér að það þurfi að takmarka netaveiðar þeirra yfir hörðustu vetrarmánuðina og það er náttúrlega ekkert vit í því að menn séu að stunda veiðar í þorskanet á bátum allt niður í 3--5 tonn í janúar og febrúar. Af þessu er auðvitað veruleg slysahætta og svo liggur í augum uppi að þessir bátar komast oft ekki á sjó dögum saman vegna veðurs. Fiskurinn drepst í netunum og er hent, því ekki eyða menn sínum takmarkaða kvóta í verðlítinn dauðan fisk. Þessi fiskur var allur dregin að landi fyrir tíma kvótakerfisins og seldur til skreiðarverkunar fyrir hálfvirði. Við þessu verður að stemma stigu. Það er ekki hægt að umgangast auðlindina svona þegar leyfður þorskafli minnkar ár frá ári.
    Umræða um að fiski sé hent í verulegum mæli hefur verið hávær í vetur og þá aðallega hvað varðar þorsk og þegar þorskkvótinn er jafntakmarkaður og nú þá leita menn að sjálfsögðu í auknum mæli í veiðar á öðrum fisktegundum. Þessar veiðar eru illframkvæmanlegar þegar þorskkvótinn er búinn vegna þess að oftast fylgir einhver þorskur með og annaðhvort verða menn þá að hætta þessum veiðum eða henda í sjóinn aftur þeim þorski sem slæðist með til að koma í veg fyrir refsingar og sektir. Þetta hafa menn neyðst til að gera í vetur og sumir ekkert farið í launkofa með það. Til að reyna að koma í veg fyrir þetta flutti hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, ásamt 15 öðrum þingmönnum úr öllum þingflokkum, frv. þar sem gert var ráð fyrir að leyfa fiskiskipum að landa allt að 15% af þorski, karfa og grálúðu, sem meðafla annarra

botnfisktegunda í þorskígildum talið án þess að sá meðafli reiknist sem aflamark hjá viðkomandi skipi það sem eftir lifir af þessu fiskveiðiári. Jafnframt að á sama tíma verði afnumið aflamark af þeim tegundum þar sem augljóslega mun ekki nást leyfður hámarksafli, þ.e. ufsa, ýsu, skarkola og úthafsrækju. Hæstv. sjútvrh. tók þessu frv. illa og kallaði það hringavitleysu og ýmsir aðdáendur kvótakerfisins gerðu slíkt hið sama og þá ekki síst þeir sem náð hafa hvað bestum árangri við að spila á kerfið.
    Viðbrögðin við þessu frv. sýndu glöggt hversu mikla tröllatrú sumir hafa á fullkomleika kerfisins og að þar megi í engu tilfelli neinu hnika til jafnvel þó alls staðar að berist fregnir af því að menn neyðist til að henda fiski í sjóinn. Það voru auðvitað ákveðin rök að þetta væri ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem hefðu farið sparlega með kvótann sinn og ættu eftir nóg af honum til að mæta meðaflanum. En til hvers leiðir þetta? Það leiðir til þess að menn freistast til að leigja kvóta nánast sama hvað hann kostar. Samkvæmt nýlegri frétt í Morgunblaðinu er þorskkvóti nú leigður á allt að 74 kr. kílóið. Þeir eru sælir sem eiga kvóta til að leigja þessa dagana. Ég held að þessi tala, 74 kr. fyrir að fá að veiða hvert kíló af þorski sýni nokkuð vel hvað framsal aflaheimilda hefur farið úr böndunum. Það er eitthvað skrýtið þegar menn þurfa orðið að borga einhverjum kvótaeiganda svipað fyrir heimild til að fá að veiða fiskinn í sjónum eins og fæst svo fyrir hann á fiskmarkaði.
    Ég sagði hér við 1. umr. og segi það enn að framsal aflaheimilda hefur farið gjörsamlega úr böndunum og þróast með allt öðrum hætti en gert var ráð fyrir þegar kvótakerfið var samþykkt hér á Alþingi fyrir 10 árum. Kvótinn hefur í æ ríkari mæli verið notaður til viðskipta með hinum ýmsu leiðum sem menn hafa fundið upp til þess. Ein þessara leiða er svokölluð tonn á móti tonni aðferð en þar leggur fiskkaupandi eins tonns kvóta á móti hverju tonni sem hann fær hjá seljanda. Verðið er svo yfirleitt mun lægra en gerist á fiskmörkuðum. Nokkrir stórir kvótaeigendur hafa beitt þessari aðferð óspart og það hefur leitt til stórkostlegra fiskflutninga um landið. Þessir aðilar hafa undanfarna daga hamast mjög í fjölmiðlum gegn hugsanlegri skerðingu á þessu fyrirkomulagi.
    En um hvað snúast þessi viðskipti? Eru menn að hugsa um heildarhagsmuni þegar fiski er ekið fleiri klukkustunda leið til vinnslu hjá þeim sem eiga nægan kvóta í stað þess að vinna hann í þeim fiskvinnslustöðvum þar sem hann berst á land og eru næst miðunum? Auðvitað ekki. Þetta getur kannski leitt til hagstæðrar niðurstöðu fyrir þessa kvótaeigendur en þetta á ekkert skylt við heildarhagsmuni.
    Í síðustu viku var forsíðufrétt í Tímanum þar sem vitnað var í ummæli Rögnvaldar Einarssonar, formanns smábátafélagsins á Akranesi á fundi framsóknarmanna kvöldið áður. Þar kom fram að 31% af þorskafla Akurnesinga hefði á síðasta ári komið frá smábátum. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta, að ,,þrjátíu aflamarksbátar hefðu landað 1.726 tonnum af þorski en við nánari athugun kæmi í ljós að úthlutaður kvóti þeirra væri aðeins 500 tonn. Skýringin á þessum mismun væri sú að þessir bátar hefðu aflað fisks af kvóta Norðlendinga, frá Sauðárkróki og Siglufirði sérstaklega, og sá afli hefði allur verið fluttur norður yfir heiðar til vinnslu. Rögnvaldur taldi því rökrétt að áætla að að óbreyttu ástandi ættu Sauðkrækingur og Siglfirðingar þorskinn sem synti í sjónum fyrir utan Akranes.`` Og síðar í greininni segir Rögnvaldur, með leyfi forseta, að ,,núverandi kvótakerfi væri ekkert annað en einkavæðing á auðlindinni sem leiddi til þess að smábátaútgerð væri að leggjast af í landinu. Menn væru orðnir svo kvótafátækir að þeir gætu hvorki lifað né dáið.``
    Í lögum um stjórn fiskveiða sem sett voru í maí 1990 segir í 1. gr. að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ég er því ósammála að tilteknir einstaklingar og fyrirtæki geti selt eða leigt þessa sameign okkar, óveiddann fiskinn í sjónum fyrir stórar fjárhæðir. Það samrýmist einfaldlega ekki minni réttlætiskennd. Fyrr í vetur hitti ég að máli sjómann sem hefur gert út eigin bát í nokkur ár. Hann hafði áhuga á að fá sér aðeins stærri bát og þegar honum bauðst skyndilega tækifæri til að selja bátinn sinn kvótalausan þá sló hann til og sá jafnframt fram á að það tæki einhvern tíma að finna annan bát og ákvað því að selja kvótann sinn, 100 tonn af þorski, fyrir það fékk hann 5,5 millj. og hefði fengið 1--2 millj. meira ef hann hefði beðið í nokkrar vikur. Þessi maður sagði sem svo að það væri ekkert vit í því hjá sér að vera að kaupa bát og standa í þessu útgerðarbasli, skynsamlegast væri að skrá bara kvótann á eitthvert horn og halda áfram að leigja hann og lifa af því góðu lífi. Svona hefur kerfið verið og í tillögum hæstv. sjútvrh. er þó komið í veg fyrir slík viðskipti þar sem lagt er til að fiskiskip sem veiða minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum tvö fiskveiðiár í röð missi veiðileyfi og aflahlutdeild sína. Þessi breyting er vissulega til bóta og þrengir nokkuð þann ótakmarkaða rétt sem kvótahafar hafa haft til að versla með fiskinn í sjónum.
    Mér finnst að framsal eigi fyrst og fremst að miðast við færslu aflaheimilda milli eigin skipa og skipti á fisktegundum við aðrar útgerðir og einnig að taka þurfi tillit til ófyrirsjáanlegra atvika svo sem stærri bilana eða tjóna. Beinar sölur eða leiga á sameign þjóðarinnar, fiskinum í sjónum, finnst mér ekki eiga rétt á sér.
    Það eru vissulega athyglisverðar tölur sem Fiskistofa hefur birt um tilfærslur á aflaheimildum á síðasta fiskveiðiári en þá voru færð um 50 þús. þorskígildistonn af botnfiski og yfir 20 þús. þorskígildistonn af öðrum fisktegundum milli skipa af 1.200--.1300 útgerðaraðilum.
    Í sameiginlegri yfirlýsingu sem Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands sendu frá sér í vetur segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Framangreind hagsmunasamtök sjómanna lýsa yfir fullri andstöðu við framsali á veiðiheimildum,

þ.e. sölu á óveiddum fiski innan gildandi kerfis um stjórn fiskveiða.
    Reynsla síðustu ára hefur leitt til aukinnar andstöðu samtaka sjómanna gagnvart óheftu framsali veiðiheimilda og nú er svo komið að mælirinn er fullur. Sjómannasamtökin telja að nú sé komið að vendipunkti í þessu máli.``
    Þetta eru skýr skilaboð og ég held að þeir sem mest hamast gegn breytingum á framsali aflaheimilda ættu að gefa þeim gaum. Varla hvarflar það að nokkrum manni að þetta kerfi haldi velli í fullkominni andstöðu við samtök sjómanna. Þessi sömu samtök settu einnig fram tillögur um breytingu á kvótalögunum. Í fyrsta lagi var þar lagt til að heimild til að framselja leigukvóta verði afnumin nema þegar um er að ræða jöfn skipti á kvóta milli skipa. Í öðru lagi var lagt til að heimild til framsals á væntanlegum kvóta verði takmörkuð þannig að endurframsal geti fyrst átt sér stað að fimm árum liðnum frá upphaflegu framsali. Í þriðja lagi kæmi svo til sérstakt ákvæði til að tryggja að leyfilegur heildarkvóti veiðist innan fiskveiðiársins. Til greina kæmu tvær leiðir. Annars vegar að kvóta verði skilað inn til endurúthlutunar og í öðru lagi að frjáls sókn verði leyfð í þeim fisktegundum sem útlit er fyrir að ekki veiðist upp í leyfilegan heildarkvóta. Þessar tillögur eru vissulega athyglisverðar og hefði gjarnan mátt taka meira tillit til þeirra við þær breytingar sem nú eru fyrirhugaðar á lögunum um stjórn fiskveiða.
    Í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða segir að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Það er mín skoðun að þetta hafi ekki tekist sem skyldi og að útfærsla laganna byggi nær eingöngu á hagsmunum handhafa veiðiheimildanna sem geta gert nánast hvað sem þeim sýnist við þær veiðiheimildir án tillits til atvinnu og byggðar í landinu. Þetta kemur hvað best í ljós þegar handhafar veiðiheimildanna ráðstafa þeim með því að flytja vinnslu fisksins út á sjó í stórauknum mæli. Afleiðingin er náttúrlega samdráttur í fiskvinnslu í landi, minni verðmætasköpun fiskvinnslu á viðkomandi stað, vannýtt fjárfesting í fiskvinnsluhúsum vegna hráefnisskorts, aukið atvinnuleysi fiskverkafólks, samdráttur hjá iðnaði og öðrum þeim sem veita fiskvinnslunni þjónustu, tekjusamdráttur sveitarfélaga vegna minni umsvifa atvinnulífs og einstaklinga og auknar greiðslur atvinnuleysisbóta. Þess vegna er það nauðsynlegt að lög um stjórn fiskveiða taki tillit til heildarhagsmuna og að útfærsla þeirra sé þannig að það gangi eftir. Þetta skiptir auðvitað miklu máli þar sem afkoma þjóðarinnar er jafnháð þróun og verðmætamyndun í sjávarútvegi og raun ber vitni.
    Fullvinnslumöguleikar fiskafurða eru miklu minni um borð í skipum en í fiskvinnsluhúsum í landi. Þess vegna þýðir stöðug fjölgun svokallaðra fullvinnsluskipa í rauninni að fiskvinnslan þróast sífellt í átt til meiri hráefnavinnslu með minni verðmætasköpun í heild. Þegar leyfður afli dregst stöðugt saman er auðvitað brýn nauðsyn að auka fullvinnslu enn frekar með vöruþróun og markaðssókn. Góður árangur á því sviði er ein af forsendum fyrir auknum hagvexti, verðmætasköpun og bættum lífskjörum.
    Það voru athyglisverðar tölur sem fram komu í bréfi sem Landssamband smábátaeigenda sendi sjútvn. Alþingis í síðasta mánuði. Þar var gerður samanburður á tveimur stórum útgerðarfyrirtækjum á Akureyri, Samherja og Útgerðarfélagi Akureyringa. Þar kemur fram að kvóti fyrirtækjanna var svipaður á síðasta fiskveiðiári. ÚA hafði 13.860 þorskígildi en Samherji 13.427. Velta ÚA var hins vegar 86% meiri eða 3.052 millj. á móti 1.644 millj. hjá Samherja. Og starfsmannafjöldi var meira en fimmfaldur eða 460 hjá ÚA en 90 hjá Samherja. Skýringin á þessum mikla mun er sjálfsagt fyrst og fremst sú að ÚA vann allan sinn afla í landi en Samherji er með mikla fullvinnslu um borð í sínum skipum. Nú má vera að einhver hluti af afla Samherja sé unninn af öðrum í landi en þarna er eftir sem áður um gríðarlegan mun að ræða á veltu og störfum.
    Skipum sem vinna aflann um borð hefur fjölgað mjög ört á undanförnum árum. Samkvæmt skýrslu tvíhöfða nefndar voru þau komin yfir 70 árið 1992 og hefur fjölgað síðan. Á síðasta ári var sjófrysting á bolfiskafla um 131 þús. tonn eða 23% heildaraflans en var aðeins 7.000 tonn tíu árum áður eða 1% heildaraflans. Þetta ásamt samdrætti í afla hefur leitt til mikilla erfiðleika margra fiskvinnslufyrirtækja í landi og þeim hefur fækkað hratt á undanförnum árum. Þannig fækkaði fyrirtækjum í frystingu og söltun um 73 einungis á tveimur árum frá 1990--1992 og á sama tíma féll hlutur söltunar og herslu úr 28% í 18% af botnfiskaflanum.
    Afleiðingin af minnkandi fiskvinnslu í landi er sú að störfum í greininni hefur fækkað mjög. Árið 1987 voru 9.950 ársverk í fiskvinnslu en árið 1993 var þessi tala komin niður í 6.400 og hafði því fækkað um hvorki meira né minna en 3.550 störf eða um 36%. Ef reiknað er með þeim margfeldisáhrifum sem þessum störfum fylgja í öðrum atvinnugreinum má reikna með að heildarfækkunin sé allt að 5.000 ársverk á umræddu tímabili.
    Það er mín skoðun að það eigi að stemma stigu við frekari fjölgun fullvinnsluskipa en þegar er orðin nema tryggt sé að afli slíkra skipa komi að stærstum hluta til framhaldsvinnslu í landi. Með því er ég ekki að gera lítið úr útgerð þeirra fullvinnsluskipa sem fyrir eru, þeim hefur vissulega fylgt ýmislegt jákvætt, en ég tel að við verðum að líta á hagsmuni heildarinnar og framfylgja því ákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Haldi þessum skipum áfram að fjölga takmarkalaust mun það leiða af sér enn meira atvinnuleysi, gjaldþrot fiskvinnslufyrirtækja og ekki síst enn æðisgengnara kapphlaup um þann afla sem berst á land og enn hærra kvótaverð en er í dag.
    Á síðasta áratug breyttist útgerðarmynstur Íslendinga verulega og má sjálfsagt að einhverju leyti rekja þá þróun til fiskveiðistjórnunarkerfisins. Smábátum fjölgaði þá mjög hratt en svokölluðum vertíðarbátum, þ.e. bátum af stærðinni 20--110 tonn, fækkaði um hátt í hundrað eða samtals um 5 þús. rúmlestir. Verulegan hluta þessarar fækkunar má rekja til kaupa stærri útgerða á aflaheimildum þessara báta. Á sama tíma fjölgaði togurum yfir 500 tonn um helming og rúmlestatala þeirra jókst um 12.000 rúmlestir.
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er á dagskrá, stjórn fiskveiðanna, er tvímælalaust eitthvert þýðingarmesta mál sem Alþingi afgreiðir á þessu kjörtímabili. Það skiptir auðvitað meginmáli fyrir þessa þjóð hvernig til tekst með stjórn þessa undirstöðuatvinnuvegar okkar. Endurskoðun gildandi laga hefur tekið langan tíma enda gerð við mjög erfiðar aðstæður þar sem leyfður þorskafli hefur minnkað um helming á tveimur árum og flestir þeir sem við þessa grein starfa hafa orðið fyrir miklum skerðingum á aflaheimildum á þessum tíma.
    Ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að þó brtt. hæstv. sjútvrh. séu flestar til bóta þá vantar mikið á að niðurstaðan í heild sinni sé viðunandi, einkum hvað varðar smábátana og verslun með aflaheimildir. Einnig finnst mér vanta í þessa stefnumörkun ákvæði sem hamla gegn því að meira af fiskvinnslunni flytjist út á sjó. Hér er verið að móta fiskveiðistefnu næstu ára og mér finnst því miður að ekki hafi tekist nógu vel til og allt of lítið sé breytt frá þeirri stefnu sem ríkt hefur á undanförnum árum.