Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 12:25:28 (7102)


[12:25]
     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Mönnum hefur verið nokkuð tíðrætt í þessum umræðum um ábyrgð Framsfl. á því máli sem hér er til umræðu og ýmsir hafa haldið því fram að hér hafi verið gengið svo langt á vit markaðshyggju og markaðsbúskapar að ekki taki nokkru tali. Það er alveg rétt að Framsfl. ber verulega ábyrgð á því fiskveiðistjórnarkerfi sem nú ríkir í landinu. En það eru líka allir aðrir flokkar hér á Alþingi sem bera þar mjög mikla ábyrgð, nema Kvennalistinn. Því allir aðrir flokkar hafa tekið þátt í því að afgreiða þessi mál með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina. Það er hins vegar varasamt að vera í allt of miklum samanburði og rekja kvótakerfið alveg frá 1984 því að kvótakerfið í núverandi mynd hefur í reynd ekki verið við lýði nema síðan í ársbyrjun 1991. Fram að þeim tíma var sambland af sóknarmarksstýringu og aflamarkskerfi, m.a. til þess að koma til móts við sjónarmið þeirra sem voru andvígir kvótakerfinu og taka tillit til þeirra.
    Það eru ýmsir sem sjá eftir stuðningi við mál og kom það m.a. fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. En ef ég sé eftir einhverju í gegnum tíðina þá sé ég eftir því að það skuli hafa verið komið svo mikið til móts við þá aðila sem predikuðu hvað mest sóknarmarksstýringu hér á árum áður. Það eru þessir sömu draugar sem ganga aftur í því frv. sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson o.fl. fluttu hér á Alþingi þar sem menn neita að viðurkenna staðreyndir og að mínu mati neita að læra af reynslunni.
    Menn geta sagt ýmislegt um þetta kerfi og auðvitað hefur það sína galla og sína kosti. Það er mikið talað um að það sé hagstætt viðskiptalífinu og hagstætt fyrirtækjunum. Ég vil taka það fram vegna orða hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að Framsfl. hefur ávallt frá upphafi staðið með atvinnulífinu og talið að atvinnulífið skipti meginmáli fyrir velferð fólksins í landinu, það verði engin félagshyggja rekin hér í landinu nema með verðmætasköpun og það sé engin leið að reka íslenskt þjóðfélag nema mikilvægasti atvinnuvegurinn, sjávarútvegurinn, sé rekinn með hagnaði. Menn geta farið ýmsum orðum um þessa afstöðu okkar. En auðvitað styðjum við markaðsbúskap og höfum alltaf gert. Við höfum alltaf talið að fyrirtækin ættu að vera eigu samtaka og almennings í landinu en ekki í eigu ríkisins. Við höfum aldrei stutt þjóðnýtingarstefnu. Ég veit ekki hvað hv. þm. er að fara þegar hann er að mæla gegn því að þetta kerfi sé þannig byggt upp að það viðurkenni markaðsbúskap og sé rekið á grundvelli markaðsbúskapar. Ég hélt satt best að segja að allir pólitískir flokkar á Íslandi væru sammála því að markaðsbúskapur væri nauðsynlegur í okkar samfélagi, annars konar búskapur hafi verið reyndur í heiminum og hann hafi gefist illa. Það má vel vera að hv. þm. sé annarrar skoðunar en ég verð að hryggja hann með því að það hefur engin breyting orðið á afstöðu Framsfl. í þessum efnum, ekki nokkur, því þessi afstaða hefur alltaf verið með þessum hætti.
    Hins vegar þakka ég hv. þm. hvað hann ber mikla umhyggju fyrir Framsfl. og lætur sér tamt að hafa miklar áhyggjur af velgengni hans hér á Alþingi. Hann virðist í reynd hafa mun meiri áhyggjur af okkar flokki en sínum eigin flokki. Hann ræðir oft um að það séu að verða veðrabrigði í þeim flokki sem séu hættuleg þjóðfélaginu og virðist þá ganga út frá því að það séu einkum veðrabrigði í þeim flokki sem skipti sköpum fyrir samfélagið. Þó ég ætli ekki að gera lítið úr stöðu míns flokks í þjóðfélaginu þá geri ég mér grein fyrir því að það er ekki hægt að ganga út frá því að nokkur flokkur fái hér meiri hluta þannig að niðurstöður mála hljóta ávallt að gerast í samstarfi tveggja eða fleiri stjórnmálaflokka hér á Alþingi og í okkar samfélagi.
    Þegar menn eru að gagnrýna það kerfi sem nú er við lýði, sem er sjálfsagt að sé gert því það er ekki gallalaust, þá hlýtur það að vera skylda aðila að reyna þá að gera grein fyrir því hvers konar kerfi menn vilja hafa í staðinn og hver líkleg áhrif slíks kerfis væru á samfélagið. Mér heyrist að menn séu almennt að tala um að gera þær breytingar á fiskveiðistefnunni, þeir sem tala fyrir verulegum breytingum, sem ganga út á það að stórauka óhagræði í sjávarútveginum. Taka upp sóknarstýringu, hefta framsal og

hefta athafnir manna og fyrirtækja út og suður. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvaða áhrif skyldi slíkt nú hafa á þjóðfélagið í heild? Á byggðarlögin í landinu og einstaka aðila? Allt ber að hafa í huga í þessu sambandi því þó að þjóðfélagsáhrifin og áhrifin fyrir heildina séu mikilvæg og skipti sköpum þá verða menn jafnframt að gera sér grein fyrir stöðu einstaklinganna og byggðarlaganna í þessu samhengi og ég vil síst af öllu gera lítið úr því. Við Íslendingar erum hins vegar í þeirri stöðu að sjávarútvegurinn er okkar mikilvægasta auðsuppspretta og hann hefur því gífurleg áhrif í samfélaginu. Þessi sama atvinnugrein er mjög skuldug þegar á heildina er litið og sumir fiskstofnanna eru of veikir. Þannig eru mikilvægustu verkefni næstu ára á sviði sjávarútvegsmála að greiða niður skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna þannig að hann geti betur tekist á við framtíðarverkefnin, þ.e. að byggja upp fiskstofnana og á sama tíma er gert ráð fyrir því að þessi atvinnugrein geti staðið undir bærilegum kjörum í samfélaginu. Það er því ekkert smáræði sem hér er undir. Það hlýtur að vera mikil ábyrgð á okkur alþingismönnum að afgreiða slíka starfsskilyrðalöggjöf sem þessa með þeim hætti að sjávarútvegurinn geti staðið undir þessum miklu væntingum og þessum alvarlegu aðstæðum sem hann stendur frammi fyrir. Ég kann ekki önnur ráð en þau að það sé reynt að gera það með eins hagkvæmum hætti og nokkur kostur er og að það sé reynt að gera það með þeim hætti að sjávarútvegurinn geti framleitt sem mest verðmæti með sem allra minnstum tilkostnaði. Ég er alveg sannfærður um að það kvótakerfi sem við búum við í dag tryggir best þessi markmið hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Það er ekki þar með sagt að það sé gallalaust og komi ekki illa við einstaka aðila í mörgum tilvikum og það sé hægt að rekja það. Og ekki er þar með sagt að hinir sömu aðilar væru betur staddir þótt breytt væri um kerfi. Ekki nema menn vilji þá strika yfir allar aðstæður eins og þær hafa verið og það sem hefur verið gert í fortíðinni og byrja upp á nýtt eins og ekkert sé og leyfa mönnum að hefja samkeppni á miðunum og berjast þar innbyrðis. En ætli það væri þá ekki líka á grundvelli markaðsbúskapar og lögmálanna um framboð og eftirspurn og samkeppni einstaklinganna. Dettur einhverjum í hug að það verði hægt að sækja á íslensk fiskimið og stunda sjó nema það verði einhver samkeppni milli aðila? Ég held að það hafi aldrei nokkrum sjómanni eða útgerðarmanni dottið það í hug í gegnum tíðina. Málið gengur hins vegar út á það að skapa leikreglur sem að sjálfsögðu hefta þessa einstaklinga í viðleitni þeirra til að skapa sem mest verðmæti og skapa þeim leikreglur þannig að þeir geti keppt sín í milli. Og það er ekki auðvelt hlutskipti og það verður að gerast með þeim hætti að uppbygging stofnanna sé tryggð til frambúðar.
    Menn hafa farið mörgum orðum um það að á undanförnum árum hafi oft verið farið fram úr þeim mörkum sem fiskifræðingar hafa mælt með og það er rétt. Menn hafa hins vegar gert minna úr því af hverju það hafi gerst og viljað afgreiða það með þeim einfalda hætti að þar sé kvótakerfinu um að kenna. Það má sjálfsagt kenna því um að einhverju leyti vegna þess að það voru ýmsir lausir endar í því sérstaklega framan af árum. Stundum hafa stjórnvöld tekið ákvarðanir um að leyfa meiri afla en fiskifræðingar gerðu tillögur um á grundvelli mats á efnahagsstöðu þjóðarinnar og annarra aðstæðna. Sumar þeirra ákvarðana hafa verið réttar og aðrar rangar eins og gengur og gerist í lífinu. Ég er hins vegar sannfærður um að það er ekkert annað kerfi en aflamarkskerfið sem getur haldið best utan um það hvað mikið er veitt. Það eru svo mörg dæmi um önnur kerfi sem hafa mistekist í þessu sambandi og þar vitna ég til Evrópusambandslandanna þar sem afli hefur farið langt fram út því sem skynsamlegt er og jafnvel talið að í Norðursjónum sé á hverju ári hent á annað hundrað þúsund tonnum af fiski. ( Gripið fram í: Er ekki kvóti þar?) ( KHG: Það er aflamarkskerfi, er það ekki?) Í Norðursjónum er heildarkvóti og ég hef skilið það svo á hv. 3. þm. Vesturl., Jóhanni Ársælssyni, að hann vilji slíkan kvóta, hann vilji ekki óheftar veiðar heldur vilji hann einhvern hámarkskvóta en vilji hins vegar leyfa meiri samkeppni milli skipanna. Þannig skildi ég þrátt fyrir allt þetta frv. sem hér var flutt af hv. 1. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Vesturl. er nú orðinn aðalábyrgðarmaður á. Ég skildi það þannig að þeir vildu hleypa mönnum lausum í ýmsa stofna eins og rækju og ýsu og fleira en ætluðu þá að stoppa þegar einhverju ákveðnu marki væri náð. Ég hafði skilið það svo. En það er nú bara þannig að það er stundum ekki auðvelt að stöðva menn af á miðri vertíð. Ég man það vel árið 1981 þegar það var hér gífurleg veiði á vetrarvertíð, það var nú sem betur fer sterkur árgangur sem þá kom upp og var allt of mikið veitt það ár. Mikið af þeim fiski fór í skreið. Þá var uppi umræða um að stöðva netavertíðina og banna allar veiðar. En það voru nú ekki margir sem voru á því þegar kom til þess að stoppa allt saman að styðja slíka aðgerð. Og að reikna með því að slíkt vald sé með þeim hætti í einu ráðuneyti þar sem menn loka fyrir veiðarnar ákveðinn dag, það held ég að verði ekki farsælt. Það hefur a.m.k. ekki verið farsælt í Bandaríkjunum þar sem lúðuveiðar í Alaska voru leyfðar einn dag í mánuði. Ég held að það sé búið að fækka þessum dögum og það er afleiðing af sóknarmarkskerfi. Mig minnir að síldveiðar séu leyfðar þar einn dag á ári. Gallinn við þetta kerfi er svo augljós, það er nóg af lúðu á markaði einn dag í mánuði en það er heldur lítið af henni hina 29 eða 30. Og einhverra hluta vegna verður lítill arður út úr þessu skipulagi þannig að jafnvel í þeim þjóðum heims þar sem markaðsbúskapur er nú hvað efst á blaði hefur ekki tekist betur til. Og af hverju hefur þeim ekki tekist betur til? Vegna þess að víða um heim er litið á fiskveiðar og sjávarútveg sem einhverja annars flokks atvinnugrein sem menn sætta sig við að lifi á styrkjum. Sætta sig við það að halda við óhagkvæmni og viðhalda starfseminni með margvíslegri styrkjastarfsemi, m.a. í Evrópusambandinu.
    Það sem hefur verið langsamlega mest gagnrýnt í gegnum tíðina er framsal aflaheimilda. Um það hefur ágreiningurinn verið hvað mestur. Menn hafa þó haldið því fram að það sé nú allt í lagi með þetta

framsal ef það er á milli skipa í eigu sömu útgerðar, það sé allt í lagi ef það eru skipti á tegundum. En ef um er að ræða að greiðsla komi fyrir þá gangi það ekki upp. Ég hef aldrei skilið þessi sjónarmið og skil ekki rökin að baki. Vegna þess að að sjálfsögðu þegar fært er á milli skipa í eigu sömu útgerðar þá á sér stað verðmætaflutningur milli skipanna, verðmætaflutningur frá einu skipi til annars og frá einni áhöfn til annarrar. Það eiga sér hins vegar ekki stað greiðslur innan fyrirtækisins í formi peninga þó að um verðmætaflutning sé að ræða. En um leið og óskyldar útgerðir og óskyldir aðilar þurfa að gera sams konar samning þá er eðlilegt að það komi greiðsla fyrir. Vegna þess að sá sem lætur aflaheimildirnar frá sér er að taka ákvörðun um það að veiða minna á sitt skip, láta það liggja við bryggju í höfninni með tilheyrandi föstum kostnaði, en láta aflaheimildirnar frá sér til annars sem getur gert það með meiri hagkvæmni þannig að sá hinn sami fær meira upp í sinn fasta kostnað. Þetta er ekki hægt að gera nema greiðsla komi fyrir. Þetta er alveg nákvæmlega sama málið. Mismunurinn er sá að það á sér stað peningagreiðsla fyrir verðmætin en í hinu tilvikinu er bara um verðmætaflutning að ræða.
    Það er nú þannig að peningar endurspegla fyrst og fremst verðmæti og þess vegna gengur þessi röksemdafærsla ekki upp. Þess vegna kemur mér það óskaplega mikið á óvart að í þessu frv. sem hér er nú flutt, þá fallast menn í fyrsta skipti á þetta sjónarmið sem er órökstutt. Hins vegar hefur það verið mjög ríkt í umræðunni. Ég hef a.m.k. oft þurft að standa í því að mótmæla þessum sjónarmiðum eins og gengur og gerist í almennri umræðu og skoðanaskiptum í landinu. En núv. hæstv. stjórnarflokkar og ríkisstjórn fallast á þetta sjónarmið. Fallast á að það eigi að gilda eitt um flutning innan sömu útgerðar, en annað ef um óskylda aðila er að ræða. Þetta tel ég vera svo alvarlegt að ég vil leyfa mér að efast um að slík mismunun standist okkar stjórnarskrá, án þess að ég ætli að vera með fullyrðingar þar um. Ég tel hins vegar vera um svo alvarlega mismunun að ræða að menn ættu að a.m.k. hafa í huga ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnræði aðila í þessu sambandi og fara yfir það.
    Því er haldið fram að þetta sé gert að kröfu ákveðins hagsmunahóps sem fari fram á það að þessari mismunun sé komið á, þ.e. að það séu sjómenn sem krefjast þess. Ég veit að þeir krefjast þess en ég tel að það eigi ekkert að láta undan þeim í því. Sjómenn geta að sjálfsögðu krafist þess að fá meiri hlutdeild í verðmætum samfélagsins og gera það og eiga að gera það og takast á eftir almennum leikreglum. En þeir eiga ekki að geta komist upp með það að krefjast þess að það sé komið á mismunun á milli útgerðaraðila í landinu. Það hefur enginn gefið þeim það vald. Alþingi Íslendinga á ekki að fara að gefa þeim það vald nú. Mér þykir líklegt að það séu til aðrir sjómenn sem munu brátt komast að raun um að með þessu sé verið að vega að þeirra hagsmunum. Og ég fullyrði að þetta mun ekki bæta heildarkjör sjómanna í landinu. Það mun gera þau verri þegar á heildina er litið. Það er svo augljóst mál að ef dregið er úr verðmætasköpun og tilkostnaðurinn við öflun teknanna verður meiri þá rýrir það kjör fólks ef ekki til skamms tíma litið þá til lengri tíma litið. Þetta er svo einfalt að í sjálfu sér á ekkert að þurfa að ræða það. Þess vegna er eðlilegt að bæði verkafólk og aðrir sem hafa hagsmuna að gæta hafi vissar áhyggjur. Það má hins vegar vel vera að ýmsir geri of mikið úr þessum áhrifum. Ég ætla ekki að vera með neinar fullyrðingar í því. Við höfum farið þess á leit að Þjóðhagsstofnun skili skriflegu áliti í þessu sambandi. Það hefur ekki enn borist. Ég vænti þess að mönnum gefist tími til að fara ofan í það og átta sig betur á því.
    Það verður ekki komist hjá því ef menn ætla að gæta hagkvæmni í kerfinu að um beinar sölur á aflaheimildum geti verið að ræða. Ég nefni sem dæmi loðnuflotann sem hefur í vaxandi mæli farið út í síldveiðarnar. Loðnuflotinn hefur afar litlar þorskveiðiheimildir og hefur þess vegna ekki mikið til að skipta á. Hann getur ekki látið í té þorsk í staðinn fyrir síld. Og það eru ekki margir fyrir utan loðnuflotann sem óska eftir því að fá loðnuheimildir. Ef það á að takast að koma síldarréttindum yfir á loðnubáta verður það ekki gert í skiptum. Þess vegna verða slíkar heimildir að vera fyrir hendi, þ.e. ef menn gefa eitthvað fyrir hagkvæmnina í þessu sem oft verður til þess að halda uppi atvinnulífi á mörgum stöðum. Hér var áðan rætt um stað þar sem ég þekki vel til, Höfn í Hornafirði. Það er alveg ljóst að þar hefði verið gífurlegt atvinnuleysi á síðasta hausti ef ekki hefði verið hægt að færa síldarkvóta yfir á loðnubáta. Mér sýnist að þær breytingar sem nú er verið að gera muni gera það miklu torveldara og setja það mál í hættu.
    Það má vel vera að í framtíðinni breytist aðstæður og hefðbundnir síldarbátar muni betur geta ráðið við síldina en því miður hefur það verið svo á síðustu tveimur árum að veðurfarið hefur verið með slíkum eindæmum að minni skipin hafa ekkert ráðið við það, ekki a.m.k. með sama hætti og áður var. Og það eru þessar breytilegu aðstæður í íslenskum sjávarútvegi sem verður að vera hægt að taka á. Þess vegna er hættulegt að breyta skyndilega einhverju sem menn sjá ekki fyrir.
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að halda langa ræðu. Ég ætla ekki að fara að ræða markaðsmál okkar og mikilvæga viðskiptahagsmuni og þá staðreynd að markaðir allt í kringum okkur skipta sköpum fyrir sjávarútveginn ekki síst markaðirnir í Evrópu, í Bandaríkjunum og Asíu. Ég hélt satt best að segja að allir væru sammála um að við verðum að tryggja okkar alþjóðlegu tengsl og pólitísk áhrif eftir því sem best verður við komið til að tryggja hagsmuni okkar. Um þetta eru deildar meiningar og ég ætla ekki að fara að gera það að umræðuefni hér þó að mikið tilefni sé til þess. ( HG: En friðun hagamúsa?) Ég get ekki séð, hv. þm., hvað það kemur sjávarútvegsmálum við en þó má vel vera að hægt sé að finna einhverja 15% reglu í því til að ná fram nauðsynlegri málamiðlun þannig að menn friði þá a.m.k. 15% af stofninum. En ég hafði ekki hugsað mér að leggja til frjálst framsal í sambandi við þann stofn. En ef það mál getur að öðru leyti orðið til að bjarga því mikilvægasta sem er verið að skemma í þessu frv. þá skal

ég a.m.k. ekki tefja fyrir þessu svokallaða villidýrafrumvarpi á Alþingi. Ég tel að ýmislegt þar sé til bóta en mér geðjast ekki að allri miðstýringunni sem þar á að fara fram. Ég hefði haldið að það væri hvað mikilvægast að stýra þorskstofninum af mikilli umhyggju en ég heyri að sumir hv. þm. hafa jafnvel, ég segi ekki meiri umhyggju fyrir hagamúsinni en svona óþarflega mikla þó þetta sé að mínu mati hið fallegasta dýr.
    Hér eru menn farnir að fá mig til að tjá mig um óskyld mál og ekki var það hugmyndin. En ég vil að lokum segja að auðvitað skiptir hagræðingin fyrir atvinnulífið í þessu sambandi gífurlegu máli. Höfum við, eins og ég sagði áður, efni á því að tapa jafnvel milljörðum? Ég er ekki maður til að reikna það út og ég hygg að enginn geti það. En af hverju að vera að taka áhættu í því sambandi sem er engum til gagns? Ekki nokkrum manni til gagns og augljóslega bara til að gera mönnum erfiðara um vik. Leysir e.t.v. einstaka ágreiningsmál sjómanna við örfáar útgerðir í landinu en skapar vandræði í samskiptum við heildina og meiri hluta útvegsins í landinu. Hvers konar röksemdafærsla er þetta? Og það á að gera með því að taka upp mismunun sem er rökleysa. Með mikilli virðingu fyrir vinum mínum í forustusveit sjómannastéttarinnar þá get ég ekki tekið undir með þeim í þessu tilviki.
    Ég tel hins vegar að það hafi verið af hinu góða hvað hefur verið mikil umræða um þessi mál undanfarna daga og vikur. Því það hefur sem betur fer orðið til þess að skapa meiri skilning á mikilvægi framsalsins sem var orðinn afar lítill, t.d. þegar sjómannaverkfallið skall á. Þá var nánast ekki talað um annað en kvótabrask eins og allar millifærslur aflaheimilda og sölur á milli skipa væru brask. Nú geta menn litið misjöfnum augum á það hvað er brask en það hefur ekki heyrst í sama mæli undanfarna daga. Ég leyfi mér að halda því fram að í samfélaginu hafi í gegnum þessa umræðu skapast meiri skilningur á nauðsyn þessa máls og það er af hinu góða og ætti vissulega að hjálpa til á hv. Alþingi við að taka skynsamlegar ákvarðanir. Það hlýtur að vera meginviðfangsefni okkar að taka ákvarðanir sem leiða til hagkvæmni og meiri verðmætasköpunar í þjóðfélaginu. En ef menn eru hins vegar svo bundnir af einhverju öðru að þeir séu knúnir til að draga úr hagræðingu þá þurfa að vera fyrir því mjög góð rök. Ég tek ekki þeim rökum að hér megi engar breytingar gera vegna þess að annars verði gífurleg átök í samfélaginu. Það er ekki mitt mat en ég vil hins vegar taka fullt tillit til þess að okkur ber auðvitað líka að koma í veg fyrir það. Ég geri mér grein fyrir því að hér takast á margvíslegir hagsmunir sem þarf að taka tillit til en það má aldrei taka tillit til þeirra hagsmuna með því að mismuna aðilum með þeim hætti sem hér er gert. Það verður að gera öðruvísi.
    ( Forseti (VS) : Forseti hafði hugsað sér að fresta fundi kl. eitt en ef hv. þm. er alveg að ljúka máli sínu þá gæti hann fengið tækifæri til að ljúka því. Að öðrum kosti vill forseti fá að fresta fundi og biður þá hv. þm. að fresta ræðu sinni.)
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé langbest að ég fari að ljúka þessu. Ég hef sagt mikið af því sem ég hafði ætlað mér að segja og jafnvel þótt eitthvað hafi orðið eftir þá eru næg tækifæri til þess. Hér eru mörg mál sem bíða afgreiðslu á sviði sjávarútvegsmála og engin ástæða til að setja á langa ræðu í þetta skipti.
    Hitt er svo annað mál að ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. taki tillit til okkar málflutnings og ég undrast hvað margir hafa gert lítið úr þeirri gagnrýni sem hefur komið fram að undanförnu, t.d. frá svokölluðum atvinnumönnum. Menn afgreiða þá eins og einhvern þrýstihóp sem eigi ekki að taka allt of alvarlega. Þetta eru nú einu sinni aðilar sem eru ábyrgðarmenn margra stærstu fyrirtækja í landinu og fyrirtækja sem skipta sköpum í viðkomandi byggðarlögum. Aðilar sem eru að berjast fyrir lífi sinna fyrirtækja. Ég tel að það eigi að taka þá alvarlega ekki síður en aðra því ég held að þeir viti afar vel hvað þeir eru um að tala þótt þeir, eins og aðrir, kunni að krydda málflutning sinn orðum sem mætti e.t.v. sleppa eins og kemur einstaka sinnum fyrir á hv. Alþingi.