Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 13:07:29 (7106)


[13:07]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég minni á að kvótakerfið er einungis tíu ára gamallt og á líftíma þess hafa að sjálfsögðu verið að þróast ýmsar viðskiptaleiðir og viðskiptaaðferðir með aflaheimildir og aflamark eða aflahlutdeildir. Það er ekkert óeðlilegt að menn þrói á sama tíma þær leikreglur sem þau viðskipti búa við. Það gerist á öllum sviðum viðskipta. Spurningin er hvort svokallaða 15% reglan dragi mjög verulega úr óhagkvæmni kerfisins. Ég vil halda því fram að hún geri það ekki. Það sem hún í rauninni takmarkar er að menn geta ekki selt frá sér aflamark og keypt það á bátinn aftur beinlínis í því skyni að lækka laun sjómanna. Það er númer eitt, tvö og þrjú.
    Varðandi kvótabankana þá er þeim lokað en það kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að flytja kvóta af skipi sem ekki veiðir hann yfir á skip sem mun veiða hann. Menn munu þróa aðrar aðferðir til þess, gera framvirka samninga þar sem menn semja um afhendingu á aflamarki sem kemur ekki til afhendingar fyrr en þegar þarf að nota það. Menn munu líka þróa leiðir til að vista varanlegar aflahlutdeildir á skipum sem þeir eiga ekki. Það er svo margt sem á eftir að gerast í þessu sem ekki er til staðar í dag þannig að 15% reglan kemur ekki í veg fyrir nein hagkvæm viðskipti með aflahlutdeildir nema þau þar sem menn eru beinlínis að lækka laun sjómanna.