Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 15:25:54 (7112)


[15:25]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er fyrst út af smábátunum. Þetta vandamál sem hv. þm. bar fyrir sig er ekkert vandamál. Það er einfalt að gefa þessum aðilum kost á því að koma inn í krókakerfið ef þeir hafa þar sömu hlutdeild og ekki minni en þeir höfðu á árinu 1990 eins og við erum reyndar með í okkar tillögu. Þá er hægt að setja undir þetta vandamál. Ég sé ekki annað en úr því það er þetta sem hv. þm. hefur áhyggjur af hljóti að vera hægt að leysa það með þessum hætti.
    Hv. þm. sagði síðan að ég hefði verið að halda því fram að allur fiskur ætti að fara á markað. Ég hef reyndar aldrei sagt það. Ég tel aftur á móti að það væri til bóta að sem mest af fiski færi á markað og að viðskipti milli skyldra aðila væri með þeim hætti að það tæki mið af allsherjarverði á svæði sem væri hægt að kalla markaðssvæði þannig að það kæmist á eðlileg verðmyndun í fiski. Því hún er ekki eðlileg í dag. Það er ekkert eðlilegt að fyrirtæki á einum stað borgi 60 kr. fyrir fiskinn á sama tíma og verið er að borga 80--90 kr. fyrir hann í fiskmarkaðnum við hliðina á fyrirtækinu. Það er ekki eðlilegt.
    Síðan sagði hv. þm. að verið væri að festa kvótakerfið í sessi með þessu. Það er fullyrðing alveg eins og það er mín fullyrðing að ekki sé verið að því. Í huga þjóðarinnar er ekki verið að festa þetta kerfi í sessi. Umræðan um kerfið í allan vetur og á sl. þremur árum hefur orðið til þess að það eru enn

þá fleiri sem setja spurningarmerki og eru á móti þessu kerfi en áður var. Og ef það er að festa kerfið í sessi skil ég ekki hvað þingmaðurinn er að tala um.