Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 16:17:59 (7118)


[16:17]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Bara aðeins að ítreka það að niðurstöður togararallsins frá ári til árs hafa reynst ótrúlega samkvæmar sjálfum sér. Hafrannsóknastofnun hefur á einu ári fundið það út að klak hafi ekki tekist vel og spáir þá um það litlum árgangi. Það hefur sýnt sig að næsta ár þegar rallið er gert þá hefur það komið fram í litlum eins árs árgangi og síðan litlum tveggja ára árgangi þar á eftir, litlum þriggja ára árgangi þar á eftir og síðan litlum árgangi inn í veiðina þegar þorskurinn er orðinn fjögurra ára. Þetta er staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá. Að sjálfsögðu er það þannig að lífsskilyrðin í sjónum hafa einhver áhrif á það hversu stór hluti af viðkomandi árgangi kemst á legg og hversu hratt viðkomandi árgangur þyngist. Það gildir það sama um okkur hv. þm. og þorskinn að því leyti til að við þurfum að sjálfsögðu að geta fengið að borða til að geta vaxið upp. Stundum borðum við, alla vega ég, of mikið.
    En aðalatriði málsins er að þessi vísindi eru að sjálfsögðu í þróun eins og öll vísindi. Ég hygg að þau séu í grundvallaratriðum á byggjandi varðandi ákvörðun um heildaraflamagn. Við þurfum að sjálfsögðu að styðja við það að þau geti fengið að þróast áfram eins og hver önnur vísindagrein þannig að við getum betur treyst þeim ákvörðunum sem Hafrannsóknastofnun tekur um heildaraflamagn.