Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:04:41 (7128)


[17:04]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Mitt andsvar sneri ekki á nokkurn hátt að steinbíti í Faxaflóa á síðustu viku en ég spurði einfaldlega hvernig hv. þm. ætlaði að koma í veg fyrir það að afla sé ekið milli landshluta. ( GE: Ég sagðist ekki geta það.) Nei, hv. þm. sagðist réttilega ekki geta það. Ég sé ekki að það sé hægt. Ef ég man rétt þá hefur flokkur hv. þm. sagt að allur afli ætti að fara á markað. ( Gripið fram í: Það mundi leysa málið.) Mundi það leysa málið? Ef allur afli færi á markað mundi það þýða að ekki væri lengur þriggja tíma akstur frá Akranesi á Sauðárkrók? ( Gripið fram í: Hann er sex tímar núna.) Mundi það þýða að sú vegalengd lengdist?
    Virðulegur forseti, því miður kemur það í ljós í þessum svörum að hér rekur sig hvað á annars horn. Þó svo að menn gætu ekki lengur landað tonni á móti tonni og samið um það þá mundi ekkert breytast hvað það snertir hverjir stæðu sig best í landvinnslu. Það mundi ekkert breytast hvað það snertir. Þeir mundu eftir sem áður hafa besta möguleikana til að bera sig eftir hráefninu. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að við lifum á breyttum tímum. Til hvers var verið að byggja upp með ærnum tilkostnaði samgöngukerfi í landinu ef menn vilja svo í framhaldinu finna leiðir til að koma í veg fyrir að menn geti nýtt samgöngukerfið til hagsbóta og flutt hráefni milli landshluta til frekari vinnslu? Ég bið menn að hugsa sig nú aðeins betur um áður en menn vaða í ræðustól á Alþingi með, ég leyfi mér að segja, rakalausa vitleysu.